„Reyndi að deyfa sársauka með öðrum sársauka“

05.02.2017 - 12:25
Vala Ósk Gylfadóttir þjáist af þunglyndi og hefur gert tilraunir til að taka eigið líf. Hún skaðar sjálfa sig til að takast á við það sem hún nefnir tómleikann. Vala kemur fram í þættinum Paradísarheimt í kvöld þar sem Jón Ársæll Þórðarson ræðir við fólk sem glímir við geðræn vandamál.

„Ég skar og brenndi mig. Ég jafnvel drakk eitur og helti sýru yfir lappirnar á mér,“ segir Vala Ósk en hún hafði mikla sjálfseyðingarhvöt strax á unglingsárunum. Hún vissi hins vegar ekki af hverju hún stafaði og hafði aldrei heyrt minnst á sjálfsskaðandi hegðun. „Það var mikil sjálfsfyrirlitning í gangi, mér leið ofboðslega illa, innri vanlíðan og reiði. Í dag skil ég hvað var í gangi, ég var að reyna að deyfa sársauka með öðrum sársauka.“

Vala Ósk notar stundum venjulegan kveikjara til að brenna sig. „Ég kveiki á kveikjaranum og sný honum við til að hita járnið. Svo set ég bara járnið við húðina og heyrist alveg suð þegar það brennur. Geri ég það aftur og aftur og aftur. Ég fæ svona ákveðna vellíðunartilfiningu í leiðinni. Ég finn alveg sársauka. En ekki eins mikinn sársauka og fólk myndi halda. Því hluti af því er, ég er að losa um andlegan sársauka og fæ ákveðna útrás.“

Í þáttaröðinni Paradísarheimt, sem hefst á RÚV í kvöld kl. 20:25, ræðir Jón Ársæll Þórðarson við fólk sem á við geðrænan vanda að stríða. Hér fyrir ofan má sjá brot úr fyrsta þættinum en meðan á gerð þáttarins stóð þurfti Vala Ósk að leggjast inn á geðdeild, eftir að hafa skorið sig og brennt.

 

Mynd með færslu
Vefritstjórn
Paradísarheimt