Ráðherra margspurður um söluna á Arion

20.03.2017 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Vinstri grænna segir það algjört prinsippmál fyrir almannahagsmuni að upplýst verði um endanlegt eignarhald á Arion banka. Fjármálaráðherra segir algjörlega óviðunandi fyrir Íslendinga annað en að svo verði gert. Ráðherra var spurður út í þau atriði sem forystufólk stjórnarandstöðu taldi óljós eða óskýr í ljósi frétta af sölu á þrjátíu prósenta hlut í Arion banka.

Segja má að bankasala dagsins hafi átt sviðið við upphaf þingfundar á Alþingi í dag þar sem nánast öllum óundirbúnum fyrirspurnum var beint til fjármálaráðherra. Ráðherra var spurður út í þau atriði sem forystufólk stjórnarandstöðu taldi óljós eða óskýr í ljósi frétta af sölu á þrjátíu prósenta hlut í Arion banka.

„Það er algjört prinsippmál fyrir almannahagsmuni, sem hæstvirtur ráðherra hefur talað mikið fyrir, að endanlegt eignarhald verði upplýst,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna á Alþingi í dag. „Hvernig ætlar hæstvirtur ráðherra að tryggja að það verði gert því hann segir hér að hann vilji sjá það upplýst hvernig ætlar ráðherra að sjá til þess að það verði upplýst,“ segir Katrín.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra sagði að hann hefði rætt þessi mál við forstjóra Fjármálaeftirlitsins til þess að upplýst verði hverjir séu eigendur þessara hluta og hverjir endanlegir eigendur séu, annað sé algjörlega óviðunandi fyrir Íslendinga.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, spurði þá ráðherra hvort einhver áform lægju fyrir um að sölu eignarhluts ríkissins í Íslandsbanka og Landsbanka.

Benedikt sagði að engin sérstök áform væru uppi í sölu bankanna og sagði líkt og fyrr mikilvægt að vanda sig og taka í þau mál góðan tíma. Og áfram var ráðherra spurður.

„Er það hans mat að kaup erlendra vogunarsjóða séu til þess fallin að auka trú almennings á Íslandi og bankakerfinu?,“ spurði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og bætti við: „telur fjármálaráðherra hæstvirtur að með þessu sé eignarhald á Arion banka gegnsætt?“