Poppstjörnur fá laun fyrir spænska hátíð

10.08.2017 - 20:44
Mynd með færslu
Emmsjé Gauti er einn þeirra sem kemur fram á tónlistarhátíðinni í Barselóna  Mynd: © Florian Trykowski  -  www.floriantrykowski.de
Reykjavíkurborg greiðir hópi íslenskra tónlistarmanna samtals 5,6 milljónir króna í laun vegna þátttöku þeirra á stærsta viðburði La Mercè-menningarhátíðarinnar í Barselóna. Viðburðurinn nefnist BAM eða Barcelona Acció Musical og sérstakt Reykjavíkurkvöld verður á aðaldegi hátíðarinnar. Meðal þeirra sem koma fram fyrir hönd borgarinnar eru Reykjavíkurdætur, Glowie, Emmsjé Gauti og Ólöf Arnalds.

Þetta kemur fram í svari Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík, við fyrirspurn Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í byrjun janúar að þekkjast boð borgarstjóra Barselóna um að vera gestaborg  borgarhátíðarinnar Le Mercé sem fer fram 22. til 25. september.  Um miðjan júlí flaug svo Dagur til höfuðborgar Katalóníu þar sem nöfn listamanna voru kynnt á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Ödu Calou, borgarstjóra Barselóna.

KJartan spurði Dag á fundi borgarráðs í lok júní hvort það hafi legið fyrir að umtalsverður kostnaður fylgdi ákvörðuninni að þiggja boð Barselóna. Dagur svarar ekki þeirri spurningu beint en segir að fjárframlag upp á 45 þúsund evrur sé aðeins brot af kostnaðinum. Barselóna standi straum af umtalsverðum kostnaði nema launakostnaði þeirra listamanna sem koma fram á BAM-tónlistarhátíðinni.

 Dagur segir enn fremur að áberandi þátttaka íslenskra listamanna muni væntanlega styrkja enn frekar ímynd Reykjavíkur sem menningarborgar og veita viðkomandi listamönnum færi á að kynna sig enn betur á alþjóðlegum vettvangi.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV