Óttast ekki sveiflur á eldislaxmarkaði

18.09.2013 - 17:32
Mynd með færslu
Íslenskar fiskeldisstöðvar sækja á annan markað en norskar og því óttast íslenskir framleiðendur ekki verðlækkun sem orðið hefur hjá á norskum eldislaxi.

Samtök norskra fiskframleiðenda, Fiskeri- og havbruksnæringens landsforening, segir að verð á eldislaxi hafi lækkað umtalsvert síðustu tvo mánuði. Í júlí fengust rúmlega 940 íslenskar krónur fyrir kílóið, í ágúst var verðið komið niður í 820 krónur en nú í september fást 740 krónur. Norðmenn segja ástæðuna vera offramboð sem vonast er til að sé tímabundið. 

Íslenskar eldisstöðvar framleiða um 4000 tonn af laxi á ári hverju og þrír fjórðu þess eru fluttir út. Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Fjarðalax segir árstíðabundna sveiflu í verð á laxi í heiminum. Aðstæður íslenskra framleiðenda séu aðrar en þeirra norsku.

„Við erum svo heppnir hérna á Íslandi að við höfum möguleika á að framleiða náttúruvottaðan lax,“ segir Höskuldur. „Laxinn okkar fer allur á dýrasta markaðinn. Það eru miklu minni sveiflur í þeim markaði, við erum að selja okkar lax á háu verði jafnt yfir árið, inn á okkar kaupendur í Bandaríkjunum og finnum því miklu minna fyrir þessum árstíðabundnu sveiflum en aðrir.“

Höskuldur segir fást um fjörutíu norskar krónur fyrir kílóið af íslenskum laxi eða um 820 íslenskar krónur, það hafi haldist stöðugt og hann býst ekki við lækkun.