Opna fyrir tilboð í ferjusiglingar

20.03.2017 - 18:08
Mynd með færslu
Í höfninni á Akranesi.  Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Reykjavíkurborg og Akraneskaupstaður ætla í næstu viku að opna fyrir tilboð í tilraunaverkefni í ferjusiglingum milli sveitarfélaganna.  

Á samningstímabilinu er gert ráð fyrir að sigldar verði að minnsta kosti tvær ferðir á dag með 50 til 200 farþega en engin vélknúin farartæki. Gert er ráð fyrir að siglingin taki 30 til 45 mínútur.

Markmið verkefnisins er sagt vera að kanna rekstrargrundvöll reglulegra bátsferða milli sveitarfélaganna. Í tilkynningu kemur fram að sá sem tekur verkefnið að sér þurfi að gera ráð fyrir því að safna upplýsingum um meðal annars samsetningu farþega og upplýsingar um reksturinn á samningstímabilinu.