Ógilda leyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi

21.06.2017 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi starfsleyfi Háafells ehf. fyrir eldi regnbogasilungs og þorsks í Ísafjarðardjúpi. Umhverfisstofnun veitti leyfið í október en úrskurðarnefndin segir leyfisveitinguna háða slíkum annmörkum að leyfið verði að ógilda.

Eigendur veiðiáa og veiðiréttinda í ám í Ísafjarðardjúpi og víðar kærðu leyfisveitinguna á þeim forsendum að lífríki áa og hinum villtu laxa- og silungastofnum ánna verði stefnt í hættu. Töldu eigendur hættu á lúsafári, sjúkdómasmiti og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi.

Í kæru þeirra segir að vitað sé að eldisfiskurinn muni sleppa í meira eða minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi og dreifa sér í veiðiár allt í kringum landið auk þess sem stórfelld saur- og fóðurleifamengun verði í nágrenni eldiskvíanna.

Skipulagsstofnun mat umhverfisáhrif sjóeldisins árið 2013. Þar kemur fram að áhrif strokufisks úr eldinu geti orðið óveruleg til nokkuð neikvæð á náttúrulega stofna laxfiska í ám við innanvert Ísafjarðardjúp, sem felst fyrst og fremst í hættu vegna smitsjúkdóma og ræðst af umfangi slysasleppinga. Áhrifin yrðu þó tímabundin og afturkræf. Nauðsynlegt sé að eldisbúnaður uppfylli staðla og stöðluð vöktun verði á uppsögnun lífræns úrgangs á sjávarbotni undr og við eldiskvíar. Úrskurðarnefndin segir að í starfsleyfinu frá Umhverfisstofnun sé hvergi nefnt að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram þó svo að ljóst sé að umhverfismatið hafi verið til grundvallar leyfinu.

Einnig sé hvorki í starfsleyfi né greinargerð vikið að því atriði sem Skipulagsstofnun fjallar um, og tilgreinir í helstu niðurstöðum sínum, að hún taki undir tillögu framkvæmdaraðila og Hafrannsóknarstofnunar þess efnis að Umhverfisstofnun útbúi flokkunarkerfi um álag af völdum mengunar á sjávarbotni undir sjókvíum og tilsvarandi viðbrögð miðað við niðurstöður vöktunar. Loks sé ekki vikið að því hvort að mat á umhverfisáhrifum á mismunandi valkostum framkvæmdarinnar hafi farið fram. Því sé ekki hægt að fallast á að Umhverfisstofnun hafi með ásættanlegum hætti tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarnefndin segir ennfremur að fleira sé athugavert við undirbúning og meðferð starfsleyfisins, svo sem að hvorki hafi verið getið um kæruheimild né kærufrest í starfsleyfinu auk þess sem ekki hafi verið leitað umsagnar heilbrigðisnefndar.

Því sé felld úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis fyrir Háafell ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.