Mynd með færslu
16.04.2017 - 12:55.Vefritstjórn.Og hvað svo?
Rithöfundurinn Sigríður Hagalín Björnsdóttir fjallar um óvissuna. Það sem er væntanlegt. Það sem er yfirvofandi. Það sem gerist. Eða mun ekki gerast.

Eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur:

Það er svo gott að sitja í heita pottinum. Það er vorhret á glugga, í heiminum geisa styrjaldir og náttúruhamfarir, hér heima ganga pólitísk og efnahagsleg hneykslismál yfir þjóðina á nokkurra mánaða fresti, en hér í heita pottinum í Laugardalslauginni má finna hvíld frá þessu öllu. Það er svo gott að láta þetta allt líða úr sér, finna heitt vatnið umlykja líkamann á meðan slyddan fellur blítt á andlitið á manni, augnlokin og varirnar. 

Og svo er allt í einu orðið svolítið þröngt hérna. Nokkrir krakkar hafa bæst í pottinn, þau flissa og tala hátt, sletta ensku og skvetta vatni hvert á annað, og húðflúruð vaxtarræktardrottning hefur lagt undir sig eftirsóttasta staðinn, það ættu þrír að geta setið þar sem hún hefur breitt úr sinni mikilfenglegu anatómíu. Þarna er feðrahópur í fæðingarorlofi með krílin sín, þau eru öll með sundbleyjur. Og svo, guð forði okkur, koma útlendingarnir. Heil rúta af þeim, beint ofan í pottinn til okkar. Við fastagestirnir ökum okkur og gjóum augum hvert á annað, þessu erum við ekki vön. Hvaðan kemur þetta fólk eiginlega? Það er allskonar á litinn, talar hátt og skammast sín ekkert fyrir það, nefmæltir Bandaríkjamenn, syngjandi Norðmenn og Kínverjar, kokmæltir Hollendingar og Sýrlendingar. Stemningin í pottinum hefur breyst, við erum orðin svo mörg, þurfum að sitja þétt og passa að reka ekki lappirnar í næsta mann, fór þetta fólk kannski ekki allt í sturtu? Er þessi kona í búrkíní? Erum við Íslendingarnir kannski komnir í minnihluta, í okkar eigin heita potti?

Við erum komin þetta langt, er það ekki?

Ég segi ekki að allt sé í allra besta lagi, en höfum við nokkurn tímann haft það eins gott og núna? Ekki bara Íslendingar, sundlaugargestirnir, ekki hlustendur Rásar eitt íslenska ríkisútvarpsins, heldur íbúar jarðarinnar, sjö og hálfur milljarður, hvorki meira né minna. Og við eigum eftir að verða miklu fleiri, ellefu milljarðar áður en yfir lýkur. Það er margt fólk. 

Við horfum yfir mannþröngina á götum erlendra stórborga, í verslunarmiðstöðvum, á baðströndum, í miðborg Reykjavíkur og Laugardalslauginni og hugsum með okkur, hvernig verður þetta eiginlega? Þegar hið ósnortna og óspillta verður sífellt verðmætara og eftirsóttara, og skarinn leggur leið sína upp á öræfi og út á annes í leit að einfaldleikanum, fámenninu, hinni guðlegu einveru, og skilur eftir sig útspörkuð moldarflög, klósettpappír og flotta selfí á samfélagsmiðlunum. Látrabjarg dúkkar upp á símaskjá í Sjanghaí, fær læk og hjarta, og verður kannski aldrei samt aftur.

Ekkert af þessu verður kannski alveg eins og það var. En er það slæmt, eða kannski bara ágætt?

Börnum í heiminum er hætt að fjölga, fólksfjöldinn er að ná jafnvægi. Það verður þéttbýlt jafnvægi, flókið jafnvægi, jafnvægi sem krefst þess að alþjóðasamfélagið, stjórnvöld og almenningur í einstökum löndum taki skynsamlegar ákvarðanir, leggi sitt af mörkum til að gera jörðina lífvænlegri og brauðfæða allan þennan fjölda.

Góðu fréttirnar eru að við erum að mörgu leyti á réttri leið. Þrátt fyrir fréttir af hungursneyð í Jemen og Súdan og Sómalíu, þá svelta miklu færri jarðarbúar í dag en fyrir síðustu aldamót. Af hverjum þúsund börnum sem fæddust í heiminum árið 1960, dóu 122 áður en þau urðu fimm ára. Í fyrra voru þau komin niður í þrjátíu, og línuritið er enn á niðurleið. 

Þetta eru vissulegar góðar fréttir – og þær koma dálítið flatt upp á mann í öllu fréttaflóðinu af stríði, hungursneyð og hörmungum í heiminum. En fréttastofurnar segja líka stundum góðu fréttirnar, þær eru bara ekki alveg jafn áhrifaríkar og minnisstæðar og hörmungafréttirnar. 
Þótt mannsheilinn krefjist stundum uppbyggilegra staðreynda og upplýsinga, þá er eins og hjartað hneigist alltaf til harmleikjanna.
 
Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér það markmið að útrýma örbirgð í heiminum fyrir árið 2030. Það er svo brjálæðislega metnaðarfullt markmið, að venjulega manneskju sundlar við tilhugsunina. Hún er svo ósennileg þegar maður ber hana saman við heimsmynd manns, og þær upplýsingar sem við fáum, um allan ójöfnuðinn, volæðið og ógnina sem mannkyninu stafar af umhverfisbreytingunum sem það hefur sjálft kallað yfir sig. Það er bara dálítið auðvelt að missa móðinn. Gefast upp. Slökkva á fréttunum, loka bókinni, leggjast í kettlingamyndböndin. Kjósa ekki. Hugsa ekki. 

Við búum við mikla óvissu. Framtíðin er ótrygg. Þetta eru eftirlætisorð stjórnmálamanna, á eftir stöðugleika og vegferð. Fín hugtök og nauðsynleg, og ég ætla alls ekki að gera lítið úr þeim. Þvert á móti. En það er auðvelt að nota þau til að hræða fólk, til að fæla það frá breytingum og hrekja það aftur á bak og inn í einhverja ímyndaða, uppskáldaða fortíð, þegar allt var einfaldara og þægilegra en það er í dag. En mannkynssagan virkar ekki þannig. Það er ekki hægt að spóla hana aftur á bak. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að mannkynið verði ellefu milljarðar. Til þess þyrftu hundruð milljóna barna að deyja áður en þau kæmust á barneignaraldur, eða koma þyrfti í veg fyrir að milljarðar manna eignuðust börn, og það hefði í för með sér lýðfræðilegt og samfélagslegt hrun víða um heim. Það er einfaldlega mannvonska að óska þess að fólksfjölgunin verði stöðvuð áður við náum ellefu milljörðum í heiminum. 

Þannig að þetta er sú framtíð sem bíður okkar, vonandi. Allt fullt af fólki. Líka hér á Íslandi. Og við þurfum væntanlega að laga okkur að henni, og því fylgir óvissa og óvissunni fylgir alltaf kvíði. Að minnsta kosti kvíðablandin tilhlökkun.

Sænskur læknir og tölfræðingur, Hans Rosling, helgaði líf sitt þeirri köllun að útrýma fáfræði almennings á Vesturlöndum um lífskjör og aðbúnað fólks annars staðar á hnettinum, og benda á leiðir til að framtíð jarðarbúa yrði betri en fortíðin. Rosling, sem lést í fyrra, benti í sífellu á að fréttirnar drægju upp kolsvarta og vonleysislega mynd af lífskjörum fólks í fátækari heimshlutum, því fjölmiðlar og hjálparstofnanir lifðu á því að selja myndir af hungri, sjúkdómum og örbirgð. 

Ég fékk tækifæri til að taka viðtal við Rosling fyrir nokkrum árum. Það var ekki auðvelt að taka það, því hann afhjúpaði hyldjúpa vanþekkingu mína og fordóma í hverju svari sínu. Ég spurði hann hvort jörðin gæti brauðfætt ellefu milljarða manna og hann horfði á mig eins og ég væri fáviti og sagði já. Næstu spurningu takk. En, sagði hann, við þurfum að taka skynsamlegar ákvarðanir. Við verðum að dreifa auðæfunum betur, það þarf að nýta fjármuni betur til að koma á hagsæld og stöðugleika í fátækari ríkjum heimsins, og lykillinn er menntun og heilbrigðisþjónusta. Og svo þurfum við hin að borða minna kjöt en við gerum í dag.

Rosling sagðist ekki vera bjartsýnn, heldur raunsær. Og þegar ég spurði hann hvort honum fyndist ekki ógnvekjandi að skyggnast svona í sífellu inn í framtíðina sagði hann: öðru nær. Þér finnst framtíðin vera óhugnarleg vegna þess að þú hefur það svo gott, sagði hann. Fyrir konu í Malawi er það nútíminn sem er skelfilegur. Tækifærin eru fólgin í framtíðinni.

Þetta hefur setið í mér síðan. Að óttinn við framtíðina, og óvissuna og breytingarnar séu lúxusvandamál, áhyggjur feitra og auðugra vesturlandabúa af því að missa spón úr aski sínum, að lífsgæðin hjaðni aðeins, kjötmáltíðunum og ferðalögunum fækki, það verði aðeins meiri troðningur í heita pottinum í Laugardalslauginni. Og að framtíðin sé hinna, þeirra sem þrá að sjá börnin sín komast til manns, komast til mennta, brjótast út úr fátæktinni, leita nýrra tækifæra, kannski í nýju landi, kannski hittumst við í Laugardalslauginni, á Látrabjargi?

Það er kannski þess vegna sem svo margir eru hræddir við nútímann, við öll þessi opnu mæri, bæði á milli landa og hugmynda, menningarheima og einkalífs hvers og eins, þegar heimurinn skreppur saman og maður heldur allt í einu á honum í símanum í höndinni á sér, þegar góð og gamaldags hugtök eins og karlkyns og kvenkyns eru allt í einu orðin opin og teygjanleg, sumir eru bara þarna einhvers staðar mitt á milli. Skyndilega eru allir staddir á einhverju rófi, hvort sem það snýst um kyn eða kynhneigð, þjóðerni, litarhaft eða hæfileikann til að eiga í samskiptum við annað fólk. Það er eins og þessi gamli svarthvíti tvíhyggjuheimur sé að hverfa og við taki einhver … óskapnaður, finnst kannski mörgum, þar sem allt er viðtekið og jafnrétthátt og leyft, á meðan maður treður ekki á rétti annarra. Eitt af því sem margir eiga erfitt með að skilja við er aðgreiningin á milli okkar og þeirra. Íslendinga og útlendinga. Eða Vesturlandabúa og annarra.  

En þessi aðgreining hlýtur að hætta að skipta máli þegar fólk flakkar á milli heimshluta, á ferðalögum, í námi, í vinnu, eignast vini, elskhuga og maka frá öðrum löndum, eignast börn, flytur heim eða ekki, myndar viðskiptasambönd, eða bara gengur í fötum sem hafa verið saumuð í Kambódíu eða Marokkó. Tengslin eru þarna, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og við getum ekki bakkað út úr nútímanum, horfið inn í einhverja ímyndaða og nostalgíska fortíð þar sem við umgengumst bara hvert annað, bjuggum við einfalda heimsmynd og gegndum einföldum hlutverkum, eiginkona, faðir, húsfreyja, húsasmiður. Því þetta var hvort sem er aldrei svo einfalt, var það nokkuð? Hin einsleita, kynhreina heimsmynd þrúgaði þá sem féllu ekki inn í normið, og lagði fólk jafnvel í gröfina. Og óvissan var ekkert bærilegri þá, með Kalda stríðið og kjarnorkuógnina rymjandi í bakgrunni eins og bilaðan ísskáp.

En það voru vissulega færri í Laugardalslauginni. 

Að lokum þetta: Framtíðin er björt, vegna þess að hún þarf að vera það. Verkefnið er að tryggja það. Útrýma örbirgð fyrir árið 2030, hægja á loftslagsbreytingum og bregðast við þeim sem eru óumflýjanlegar, og beita öllu því hugviti og skynsemi sem maðurinn býr yfir til að brauðfæða þá milljarða sem enn eru ófæddir. Menningarheimar líða undir lok ef þeim tekst ekki að leysa þau vandamál sem steðja að þeim, og tegundir deyja út ef þær aðlagast ekki breytingum. Helsta tromp mannskepnunnar í þróunarsöguleiknum er aðlögunarhæfnin, við erum engir pandabirnir, engar gróðurhúsaplöntur. Maðurinn beinlínis þrífst á óvissu og krefjandi aðstæðum, og næstu áratugir verða tækifæri til að láta ljós tegundarinnar skína. Rýma til fyrir fleira fólki.