Ofursvöl áferð og skuggaleg framvinda

fufanu
 · 
Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Sports
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Ofursvöl áferð og skuggaleg framvinda

fufanu
 · 
Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Sports
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
17.02.2017 - 11:20.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Fufanu halda áfram ferðalagi sínu um svalar, gotneskar lendur og snara upp öruggu, straumlínulöguðu verki sem kallast Sports. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Fyrsta lagið á Sports, samnefnt plötunni, er drifið áfram af véltakti þeim sem Neu! og Can nýttu sér í hinu svokallað súrkálsrokki á áttunda áratugnum. Eitursvalt lag – eins og hljómsveitin öll og þessi plata hér. Síðasta breiðskífa Fufanu, Few More Days to Go, kom út fyrir rétt rúmu ári síðan og framleiðslan á bænum því með miklum ágætum. Á henni voru þeir Hrafnkell og Gulli, öxulveldi sveitarinnar, að finna fótum sínum forráð sem hljómsveit fremur en teknódúett og innihaldið var gotnesk, síðpönksskotin raftónlist – áhersla á skuggum bundið andrúmsloft fremur en einstök lög endilega.

Breytingar

Sviptivindar hafa alla tíð leikið um Fufanu-heima og í dag er sveitin orðin að tríói, búið að straumlínulaga bæði band og tónlist í raun. Sports er ekki það ólík fyrirrennaranum en samt, þetta er bara meira „alvöru“ og til vitnis um lengra komna sveit. Hljómur er t.a.m. frábær en upptökustjórn var í höndum Nick Zinner úr Yeah Yeah Yeah‘s og hann sveipar plötuna þykkri, dökkri og nokk mjúkri áferð. Það er líka eins og borgin sem Zinner gerir út frá, New York, sé þarna einhvers staðar í blöndunni.

Platan skríður hægt en örugglega áfram og líkt og fyrr, andrúmsloft og stemning er númer eitt, tvö og þrjú fremur en einstök lög. Hrafnkell Flóki syngur/talar eða jafnvel tónar kuldalega yfir lögunum, er fjarlægur og ótengdur, stíll sem hæfir þessum smíðum fullkomlega. Trommuhljóð eru stundum snörp, gítarleikur skræmdur og hátóna en allt er þetta umlukið þessari dökku dúð sem Zinner notar til að pakka plötunni inn.

Kímnigáfa

Umslagshönnun plötunnar – og nafngift – er í sterkri mótstöðu við innihaldið og greinilegt að Fufanu halda í lúmska kímnigáfu þrátt fyrir alvarlegt yfirborðið. Hlutirnir eru aldrei einfaldir, hvað þá gefnir. Hins vegar er þetta allt á réttri og góðri leið hjá okkar mönnum.  

Tengdar fréttir

Tónlist

Mýkt, melódíur og einlægur flutningur

Tónlist

Bæði hressandi og hjartatosandi

Tónlist

Einlæg og tilfinningahlaðin – frábær plata

Tónlist

Systurnar, sorgin og sáttin