Öðru máli Háttar gegn Karli vísað frá dómi

19.03.2017 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson
Hæstiréttur vísaði fyrir helgi frá dómi máli sem skiptastjóri þrotabús Háttar efh. höfðaði gegn Karli Wernerssyni, fyrrverandi eiganda félagsins. Skiptastjóri vildi rifta greiðslum Háttar til Karls sem greiddar voru frá því í júní 2009 fram í mars 2012, upp á samtals 52 milljónir.

Héraðsdómur samþykkti að rifta greiðslu upp á hálfa þrettándu milljón en hafnaði öðrum kröfum. Hæstiréttur vísaði málinu hins vegar frá dómi á grundvelli þess að þegar hefði verið dæmt um að Háttur hefði skuldað Karli fé.

Þetta er ekki fyrsta mál þrotabúsins gegn Karli. Skiptastjóri taldi að Karl hefði reynt að koma eignum út úr búinu með því að framselja sér Hrossaræktarbúið Fet í skuldauppgjöri skömmu fyrir gjaldþrot Háttar. Karl andmælti því og sagðist hafa lánað Hætti fé til að kaupa hrossaræktarbúið af öðru félagi í apríl 2007. Hann hefði þá greitt fyrstu kaupgreiðsluna fyrir Fet og lagt félaginu til pening síðar. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi þá þrotabúinu í vil en Hæstiréttur vísaði því máli frá dómi, þar sem óumdeilt væri að Karl hefði lagt félaginu til fé og málið því vanreifað.