„Miles kenndi mér að vera hugrakkur í tónlist“

Djass
 · 
harpa
 · 
Herbie Hancock
 · 
Tengivagninn
 · 
Tónlist
 · 
tónlist
 · 
Menningarefni

„Miles kenndi mér að vera hugrakkur í tónlist“

Djass
 · 
harpa
 · 
Herbie Hancock
 · 
Tengivagninn
 · 
Tónlist
 · 
tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.07.2017 - 19:30.Guðni Tómasson.Tengivagninn
Bandaríski tónlistarmaðurinn Herbie Hancock er á leið til Íslands. Hann heldur tónleika í Hörpu fimmtudagskvöldið 20. júlí. Ferill listamannsins hófst þegar hann helti sér í líflega djasssenuna í New York upp úr 1960. Síðar tók við samstarf með trompetleikaranum Miles Davis, sólóplötur og tækniþróun og önnur áhrif sem mótuðu tónlistina úr öllum áttum.

Tengivagninn á Rás 1 var helgaður Herbie Hancock og þar var rætt við hann um langan feril. Hér fyrir ofan má heyra brot úr þættinum. En þáttinn allan má nálgast á Sarpnum.

Chicago var mér góð

Herbert Jeffrey Hancock fæddist 12. apríl 1940 í Chicago. Móðir hans var ritari en faðirinn vann við matvælaeftirlit í kjötframleiðslu. Herbie Hancock á hreint út sagt ótrúlegan feril. Sem lagasmiður hefur hann samið margar af þekktustu og vinsælustu djass og fönk lagasmíðum 20. aldar en 22 ára komst hann á útgáfusaming hjá Blue Note útgáfu fyrirtækinu.

Árum saman lék Hancock í goðsagnakenndum sveitum trompetleikarans Miles Davis og inn á plötur sem Miles og fleiri listamenn gerðu á þessum árum. Margar þessara platna standa sem tindar upp úr djass-tónlistarsögunni.  

Hancock hóf að leika á píanó sjö ára og hæfileikarnir voru greinilegir. Ellefu ára steig hann á svið með sjálfri Chicago sinfóníuhljómsveitinni eftir að hafa unnið keppni á vegum hljómsveitarinnar, en það var síðan trompetleikarinn Donald Byrd sem kynnti Hancock inn í djasslíf New York skömmu eftir 1960.

„Chicago var og er frábær borg,“ segir Hancock. „Hún styður vel við ungt hæfileikafólk í listum. Ég lærði heilmikið af eldri tónlistarmönnum í borginni en „Stóra eplið“ var auðvitað aðal vettvangurinn í djassinum í þá daga. Ég bjó í ellefu ár í New York og vann með Miles Davis um nokkurra ára skeið. Þá var ég reyndar farinn að taka upp eigin tónlist fyrir Blue Note.“

Mynd með færslu
 Mynd: Francis Wolff / herbiehancock.co  -  herbiehancock.com/
Hancock við flygilinn á þrítugsaldri.

Miles kenndi mér að hlusta

Með Miles Davis spilaði Herbie Hancock á hverju meistaraverkinu á fætur öðru. Ásamt Miles, saxófónleikaranum Wayne Shorter, bassaleikaranum Ron Carter og trommuleikaranum Tony Williams lék Herbie í einhverri merkustu sveit djasssögunnar, kvintettinum sem starfaði á árunum 1965 til 1968 og tók upp tónlist á plötur á borð við E.S.P., Miles Smiles, Nefertiti og Circle All Around.

„Ég hugsa til Miles Davis á hverjum degi,“ segir Hancock. „Ég var bara á þrítugsaldri þegar ég gekk til liðs við hann og margar hugmyndir mínar voru ekki að fullu mótaðar. Ég lærði margt af honum sem hefur fylgt mér, til dæmis mikilvægi þess að hlusta vel þegar maður er að spila. Ég áttaði mig á því að það skipti öllu máli því að Miles setti ný viðmið í því að hlusta. Jafnvel þegar hann var að taka sóló á trompetinn þá var hann allan tímann að hlusta á okkur hina. Annað sem Miles kenndi mér var að vera hugrakkur í listum, að leita alltaf í nýjar áttir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hancock Archives / herbiehancock  -  herbiehancock.com
Hancock tók rafmagninu fagnandi á sínum tíma.

Leitandi listamaður

Það breyttist margt á árunum 1968 og 1969. Nefna má stúdenta uppreisnir, morðið á Martin Luther King, Woodstock-hátíðina, Víetnamstríðið náði hámarki og maðurinn gekk á tunglinu. Tónlistin hlaut að breytast líka. Í djassinum stækkuðu hljómsveitirnar oftar en ekki og hljóðfærum var stungið í samband. Rafmagnspíanó, rafmagnsgítarar og hljóðgervlar voru málið og fjarlægir menningarheimar höfðu áhrif á tónmálið. Með verkefni á borð við The Headhunters hljómsveitinni, sem hann fór fyrir, náði Herbie Hancock til stærri áheyrendahóps á áttunda áratugnum.

„Tónlistargagnrýnendur skildu ekki alltaf hvað við vorum að gera á þessum árum,“ segir Hancock. „Við voguðum okkur að spila á rafmagnspíanó og hljóðgervla.  En á meðan þá náði þetta oft til yngra fólks sem hafði áhuga á þessum nýja hljoðheimi.

Verkefni Hancocks á síðustu árum hafa verið að ýmsu tagi og hann er enn að vinna að nýrri tónlist auk þess sem hann getur blandað saman lögum af áratuga löngum ferli á tónleikum sem hann er duglegur við að spila. Frá því um aldamótin hafa plötur Hancocks til heiðurs öðrum listamönnum vakið mikla athygli. Nefna má plötu sem hann gerði um bandaríska tónskáldið George Gershwin og kanadísku söngkonuna og lagasmiðinn Joni Mitchell. Sú plata hlaut Grammy verðlaun árið 2007 og var fyrsta djassplatan til að gera það í áratugi.  

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Herbie Hancock kemur fram í Hörpu 20. júlí

Tónleikar nr. 2

Herbie Hancock hefur komið einu sinni áður til Íslands til að halda tónleika, hann hélt einleikstónleika á diskósviðinu í gamla Broadway á Listahátíð árið 1986.

Og nú eru hann og hljómsveit á leið til landsins. Tónlistarmennina hleður hann lofi en með honum leika Vinnie Colaiuta, James Genus, Lionel Loueke og Terrace Martin. Nánari upplýsingar um tónleikana má finna hér.

Viðtalið má heyra í heild í Tengivagninum á Rás 1.

Hér má hlusta á þáttinn í heild sinni

Tengdar fréttir

Tónlist

Herbie Hancock í Hörpu í sumar