Mikil gasmengun á Höfn - myndband

26.10.2014 - 17:21
Íbúar Hafnar fengu skömmu fyrir hálf fimm í dag sms - skilaboð frá Almannavörnum þar sem fram kom að samkvæmt mengunarmælum væri styrkur brennisteinsdíóxíðs á milli 9.600 og 21.000 mikrógrömm á rúmmetra. Þetta er langhæsta mengunargildi sem mælst hefur í íbúabyggð síðan gosið í Holuhrauni hófst.

Þessi frétt verður uppfærð 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu liggur blá móða yfir bænum og hefur sumum íbúum þar ekki staðið á sama. Fyrir skömmu mældist styrkur brennisteinsdíóxíðs 6.000 sem þótti þá mikið.

Samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar eru allir líklegir til að finna fyrir miðlungs - eða alvarlegum einkennum frá öndunarfærum þegar styrkurinn mælist svona hár. 

Í tilkynningu frá Almannavörnum klukkan 16:40 segir að mikilvægt sé að fólk haldi sig inni - mengunarmælar sýni á milli 9.000  og 21.000 míkrógrömm á rúmmetra.  Aldrei hefur mælst svona mikil mengun í íbúabyggð. Í síðustu viku fór styrkur brennisteinsdíóxíðs yfir 6.000 míkrógrömm á rúmmetra. 

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, ráðleggur fólki að skrúfa frá sturtunni, hafa opið inn á bað því þannig sé hægt að draga úr menguninni. Mesti styrkur brennisteinsdíóxíðs frá gosinu í Holuhrauni hefur verið 7.000 míkrógrömm á rúmmetra.

Margrét Gauja Magnúsdóttir, íbúi á Höfn, segir að henni standi ekki á sama. Hún segir loftið kalt en samt þungt, það sé lyktarlaust en hún fái bragð í hálsinn sem hún geti ekki lýst.  „Þetta er þannig að manni stendur ekki á sama og maður vill alls ekki vera úti við.“

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri í Höfn, segir þetta vera eins og þoku, nema hún sé blá. Hann segir það hafa tvívegis komið fyrir að styrkur brennisteinsdíóxíðs hafi farið yfir 6.000 míkrógrömm á rúmmetra. „Og miðað við verðurspána finnst mér líklegt að þetta verði svona á morgun líka.“

Í myndbandi sem Sæmundur Helgason tók við golfvöllinn í Hornafirði annars vegar klukkan 14 og hins vegar 16:20 sést mengunin vel. Á fyrra myndbandinu sést naumlega til fjalla. 

freyrgigja@ruv.is