Mynd með færslu
05.12.2016 - 11:11.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Tómas R. Einarsson er með okkar allra iðnustu tónlistarmönnum og á Bongó leggur hann fram sprúðlandi virðingarvott við kúbanska tónlist. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem var plata vikunnar á Rás 2 í síðustu viku.

Umslagið á nýjustu plötu Tómasar R. Einarssonar, Bongó, segir ansi mikið um innihaldið. Höfundurinn situr umkringdur valinkunnum hljóðfæraleikurum og söngvurum og það er glatt á hjalla. Það er meira að segja eins og við séum að labba inn í miðja hláturroku hjá hópnum, séum nánast að trufla góðglaða vini í góðri sögu. Gleðin er hrein og tær, yfir henni ótaminn og frjáls andi og þetta er smitandi. Ég get hreinlega ekki tekið augun af henni!

Speglun

Og myndin góða endurspeglar að sjálfsögðu innihaldið. Hópurinn, sem samanstendur af söngvurunum Bógómíl Font og Sigríði Thorlacius og síðan hljóðfæraleikurunum Rósu Guðrúnu Sveinsdóttur, Davíð Þór Jónssyni, Samúel Jóni Samúelssyni, Ómari Guðjónssyni, Snorra Sigurðarsyni, Sigtryggi Baldurssyni (góðvini Bógómíls), Einari Scheving og Kristóferi R. Svönusyni og Tómasi sjálfum auðvitað, einkennist af fagfólki, nema hvað, en aukinheldur eru þetta vinir frá fornu fari, hafa leikið saman í hinum ýmsu sveitum í árafjöld. Slíkt felur eðlilega í sér að menn þekkja hvorn annan inn og út og það er þetta fjarskynjunarsamband sem einkennir Bongó fremur en hitt, vinir góðir að skemmta sér og týna sér í faðmi tónlistartöfra. Er ég að fara fram úr mér? Varla.

Bongó hefur að gera með kúbanska tónlist, svið sem Tómas hefur heimsótt áður (t.d. á plötunum Kúbanska og Havana). Tildrög plötunnar eru skemmtileg og Tómas segir frá í bæklingi plötunnar. Hann hafi gist í Santiago, næststærstu borg Kúbu, og skynjað þar öðruvísi stemningu en í höfuðborginni Havana. Hann hafi svo drukkið í sig tónlistina þarna og fyrr en varði kviknaði hugmyndin að þessari plötu. Hún var svo tekin upp í Hljóðrita í ágúst.

Neisti

Tómas nefnir líka að hann hafi langað til að leggja íslenskan kveðskap við tónlistina sem „næði í skottið á lífsgleðineistanum sem þarna logaði“. Hrynheitar smíðarnar bera enda með sér grallaralega, launfyndna texta sem Tómas, Sigtryggur og dóttir Tómasar, Kristín Svava Tómasdóttir, eiga (einnig eru hér lög við texta eftir Halldór Laxness og Ingibjörgu Haraldsdóttur. Ég nefndi það í upphafi að maður finnur fyrir gleðinni og fjörinu og Tómas segir í bæklingi um upptökurnar: „Orkan flæddi og mér leið eins og ég væri kominn upp á sviðið í Casa de la Trova ... það má heyra á þessum diski að það var góður andi í Hljóðrita þessa ágústdaga“. Þetta get ég staðfest og þetta finnur hlustandi í hljóm, ljósmyndum og textum. Sveiflurík og neistandi tónlist, klædd í flosklæði og vippað fram af fólki sem er með tónlistina í blóðinu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Tómas R. - BONGÓ

Tónlist

Slembilukka getur af sér sjóðandi heitt rokk

Menningarefni

Náðargáfa Stefáns Hilmarssonar

Menningarefni

Aðgengilegt flipp og skítugar stemmur