Margæsir veiddar í net og merktar

18.05.2017 - 10:56
Á hverju ári lenda tugþúsundir margæsa á Íslandi á leið sinni milli varpstöðva í Kanada og Írlands þar sem þær hafa vetursetu. Þær fljúga um tíu þúsund kílómetra á ári, sem er með lengstu flugleiðum gæsa. Vísindamenn hafa í mörg ár fylgst með stofninum og merkt um 5000 fugla.

Kastljós fékk að fylgjast með alþjóðlegum hópi vísindamanna fanga gæsirnar á túni á Álftanesi. Sérstök net eru notuð til að fanga gæsirnar en oft þarf að bíða klukkustundum saman áður en hægt er að skjóta því yfir fuglana. Mikilvægt er að þær séu á réttum stað svo netið skaði þær ekki.

Hópurinn merkir fuglana með íslensku stálmerki og svo sérstökum litamerkjum sem lesa má af með sjónauka í um kílómetra fjarlægð. Merkin auðvelda vísindamönnum að fylgjast með einstaklingum og þannig fá vísbendingu um afkomu stofnsins og fæðuframboð.

Meðal þess sem rannsóknarhópurinn hér er að skoða er bakteríuflóra og hvernig hún tengist fæðuvali og möguleikum fuglanna til að safna forða. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þennan stofn því kviðfitan sem fuglarnir safna hér nýtist bæði í langt flug til Kanada og í varpið.

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós

 

Margæsin heldur sig við vesturströnd Íslands og má einkum sjá hana í kringum Faxaflóa og suðurhluta Breiðafjarðar. Þær eru fastheldnar á flugleiðir og fylgja þeim leiðum sem foreldrarnir kenna þeim. Ef gæs lærir sem ungi að fljúga í gegnum Álftanes mun hún gera það á fullorðinsárum líka, en þær sem lenda á Snæfellsnesi gera það áfram. Lítil blöndun er á milli hópa sem lenda á mismunandi svæðum eins og vísindamennirnir hafa komist að.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós
Mynd með færslu
Baldvin Þór Bergsson
dagskrárgerðarmaður
Kastljós