Mannsævi í spegli sögunnar

Bókmenntir
 · 
Menningarefni

Mannsævi í spegli sögunnar

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
03.05.2017 - 18:28.Jórunn Sigurðardóttir
Mannsævi eftir austuríska rithöfundinn Robert Seethaler er ekki löng bók og þar er ekki stiklað frá skírn til fermingar, útskriftar úr háskóla til elli og til loka mannlegrar ævi.

Í Mannsævi er sögð saga fjalladrengsins Adreas Egger sem er sendur sem böggull til næsta vandalausra upp í fjöllin í austurísku ölpunum eða öðrum ölpum árið 1907 og lifir þar alla sína tíð utan þegar hann á sínum höltu fótum fær að ferðast í austurveg til að verja þriðja ríkið sem svo var kallað. 

Þetta er snörp frásögn um það hvernig hendingar skapa mannsævina, hversu lítið mannskepnunni er gefið um breytingar og hversu ógnarhratt heimurinn og umhverfið allt breytist. Aðeins ísinn heldur utan um sitt án þess að það breytist. 

Robert Seethaler er leikari að mennt og hefur leikið í fjölda leiksýninga sem og í sjónvarps - og kvikmyndum. Hann stóð á fertugu þegar hann sendi frá sér sína fyrstu bók árið 2006 og af umsögnum að dæma virðast fyrstu bækur hans fjalla á húmorískan hátt um stóru hlutina í lífinu ástina, dauðann, samastað manneskjunnar í lífinu hvort sem hún stendur í miðju sinnar eigin atburðarásar eða er ævinlega á jaðrinum. 

Söguhetja bókarinnar Mannsævi, Andreas Egger, er vinnusamur og sterkur og hann gerþekkir umhverfi sitt. Á rúmlega sjötíu ára ævi lifir hann að heimurinn fer á hvolf í heimsstyrjöld, að íbúafjöldinn í þorpinu hans margfaldast ekki síst vegna ferðamannanna sem nú þurfa reglulega á nándinni við náttúruna að halda án þess jafnvel að skynja hana. Hann á sjálfur þátt í því hvernig samgöngur breytast því það var hann sem rak tröllauknar skrúfurnar í stólpana svo togvírar sviflestanna væru alltaf á sínum stað. Mikilvægast er þó að Andreas lifði líka að elska. 

Þessi fallega frásögn kom nýlega út í Neonbókaklúbbi Bjarts í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur.