„Mætti halda að ég hafi lent undir hrossi“

08.06.2017 - 16:27
Knapi og hryssa sluppu óbrotin þegar hún hrundi niður á skeiði á úrtökumóti hestamannafélagsins Spretts fyrir HM í gær.

Betur fór en á horfðist þegar hryssan Hekla frá Akureyri missti fótanna á skeiði á úrtökumóti hestamannafélagsins Spretts fyrir heimsmeistaramót íslenska hestins í gærkvöldi. Bæði knapi og hryssa sluppu óbrotin frá fallinu. Knapinn Svavar Örn Hreiðarsson segist lemstraður en óbrotinn og sömu sögu er að segja af hryssunni.

Mæld á 47 kílómetra hraða

„Það mætti halda að ég hafi lent undir hrossi,“ sagði Svavar þegar fréttamaður náði tali af honum, en hann var fluttur á spítala eftir atvikið. Svavar sagðist ekki gera sér almennilega grein fyrir því hvernig slysið hafi borið að garði. „Ég er allur marinn og blár. Þegar ég ætlaði að fara fram úr í morgun sagði líkaminn stopp og ég hrundi niður.“

Svavar hefur þó ekki áhyggjur og býst við að ná hestaheilsu að nýju. Hann segir Heklu með sár á brjósti og bólgna á höfði, en að muni einnig ná sér. Hann áttar sig ekki á hversu hratt hún fór þegar hún féll, en í vetur var hún hraðamæld af lögreglu á Mývatni, og náði þar 47 kílómetra hraða.

Tökumaður RÚV var á staðnum og náði mynd af því þegar hryssan féll. Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Spretts, segir þetta hreint og klárt óhapp. Áhorfendur voru slegnir enda ljótt slys.

Gunnar Dofri Ólafsson