Lögregla fylgist með vélhjólaklúbbi í Garðabæ

15.09.2016 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í rannsóknardeild skipulagðrar brotastarfsemi, segir að lögregla fylgist grannt með vélhjólaklúbbnum Bad Breed MC sem hefur aðsetur í Garðabæ. „Við fylgjumst mjög grannt með þeim í samstarfi við lögregluna á Suðurnesjum og ríkislögreglustjóra. Við höfum reglulega haft afskipti af mönnum sem merkja sig þessum ákveðna klúbbi,“ segir Runólfur í samtali við fréttastofu.

Stundin greindi frá því gær að hópur manna keyri nú bifhjól sín undir merkjum Bad Breed MC og mennirnir hefðu aðstöðu í húsnæði í Garðabæ sem væri merkt klúbbnum.

Bad Breed MC á rætur að rekja til Svíþjóðar en hópurinn er nátengdur alþjóðlegu glæpasamtökunum Banditos. Í fyrra var fjórum liðsmönnum glæpasamtakanna vísað úr landi. Ekki var vitað í hvaða erindagjörðum mennirnir voru hér á landi. Þeir voru ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald og komust ekki lengra en til Keflavíkur.

Bad Breed í Svíþjóð heldur úti Facebook-siðu og nú á mánudaginn hvöttu þeir notendur til að styðja „bræður sína“ á Íslandi.

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV