Leit hætt þar til nýjar vísbendingar berast

20.03.2017 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  LRH
Leit að Arturi Jarmoszko hefur verið hætt þar til nýjar vísbendingar berast. Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að lögreglan hafi átt fund vegna leitarinnar í morgun. Engar nýjar vísbendingar hafi borist um ferðir Arturs.

Hann segir að ábendingar hafi borist frá almenningi um föt og skó sem fólk hafi fundið á förnum vegi. Flestar ábendingar berist lögreglu á Facebook og þær séu allar skoðaðar.  

Björgunarsveitarmenn ganga fjörur í Fossvogi í leit að Arthuri Jarmoszky, sunnudaginn 12 mars 2017.
 Mynd: RUV

Átta dagar höfðu liðið áður en tilkynnt var um hvarf Arturs og það torveldar leit. Fram hefur komið að Artur hafi tekið út peninga rétt áður en hann hvarf en Guðmundur Páll segir það hafa verið smáræði. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þorsteinn Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að ekkert sé hægt að gera nema nýjar vísbendingar komi fram. Þangað til sé ekki hægt að leita. Komi fram nýjar vísbendingar haldi björgunarsveitirnar aftur út til leitar. 

Eina vísbendingin sem unnið hefur verið eftir er að sími Arturs tengdist farsímasendum á Kársnesi, við enda flugbrautar Reykjavíkurflugvallar í Skerjafirði og á Álftanesi. Leit björgunarsveitanna í síðustu viku og um helgina miðaði því við svæðið frá Gróttu að Nauthólsvík, við Kópavogshöfn og Álftanes. Um 80 björgunarsveitarmenn leituðu á laugardag með aðstoð báta, dróna og hunda. 

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða í gegnum einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV