Landsliðskonur að ná sér af meiðslum

15.05.2017 - 20:11
Mynd með færslu
 Mynd:  -  RÚV
Þær Hólmfríður Magnúsdóttir og Sandra María Jessen komu báðar inn á af varamannabekknum hjá sínum liðum í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Frábær tíðindi fyrir kvennalandsliðið en tveir mánuðir eru þar til flautað verður til leiks á EM í Hollandi.

Hólmfríður Magnúsdóttir, sem gekk til liðs við KR í nóvember, kom inn á í fyrsta leik sínum í Pepsi-deildinni í kvöld þegar KR mætti FH í Kaplakrika. Hólmfríður ristarbrotnaði í janúar en virðist nú vera orðin leikfær.

FH byrjaði leikinn af miklum krafti og strax á fyrstu mínútu skoraði Caroline Murray fyrir heimakonur í FH. Fimm mínútum síðar tvöfaldaði Guðný Árnadóttir forystuna og staðan 2-0 fyrir FH í hálfleik. Ásdís Karen Halldórsdóttir minnkaði muninn fyrir KR á 74. mínútu en þar við sat, lokatölur 2-1 fyrir FH. Hólmfríður Magnúsdóttir kom inn á fyrir KR á 83. mínútu, mikið fagnaðarefni fyrir KR og kvennalandsliðið ef hún er komin á ról.

Landsliðskonan Sandra María Jessen kom einnig inn af varamannabekk Þór/KA á 85. mínútu í dag en hún sleit aftari krossbönd í hné í leik með landsliðinu á Algarve Cup í mars. Heimakonur í Þór/KA höfðu betur gegn Haukum, 2-0, en mörkin skoruðu þær Hulda Björg Hannesdóttir og Sandra Stephany Mayor. 

Þór/KA er með fullt hús stiga eftir fyrstu fjóra leikina en. FH er í þriðja sæti með 6 stig en KR og Haukar verma botnsætið með ekkert stig.

 

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður