KR í úrslit eftir spennuþrungin sigur

11.04.2017 - 21:10
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski  -  RÚV
KR mun leika gegn Grindavík um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik eftir dramatískan sigur á Keflavík í fjórða leik liðanna TM-Höllinni í Reykjanesbæ í kvöld, 84-86. Leikurinn var í járnum frá upphafi til enda en Jón Arnór Stefánsson tryggði KR-ingum sigurinn með tveggja stiga körfu þegar um fimm sekúndur voru eftir. KR vann því einvígið 3-1.

Keflavík fékk lokatækifæri til að jafna eða vinna leikinn en Kristófer Acox varði skot frá Herði Axel Vilhjálmssyni þegar skammt var eftir. Jón Arnór var stigahæstur í jöfnu liði KR með 16 stig.

Amin Stevens átti enn og aftur stórleik í liði Keflavíkur og skoraði 39 stig auk þess að taka 19 fráköst. Það dugði ekki til og því er ljóst að KR mun leika til úrslita gegn Grindavík um Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrsti leikur KR og Grindavíkur fer fram í DHL-Höllinni og hefst einvígi þessara liða í næstu viku.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður