Kaupin á Felli við Jökulsárlón samþykkt

11.11.2016 - 17:06
Jökulsárlón
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Sýslumaðurinn á Suðurlandi samþykkti í dag samning um kaup Fögrusala ehf. á jörðinni Felli við Jökulsárlón. Kaupverðið er 1520 milljónir króna. Til að samningurinn yrði samþykktur í dag þurfti kaupandinn að reiða fram fjórðung kaupverðsins, 380 milljónir, sem hann og gerði.

Hefði það ekki tekist hefði komið til álita að taka tilboði frá Einari Birni Einarssyni sem var 10 milljónum lægra. Einar Björn er einn landeigenda og rekur ferðaþjónustu á Jökulsárlóni sem er mikil náttúruperla og einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þar hafa deilur landeiganda tafið uppbyggingu, tveir þeirra fóru fram á nauðungarsölu til slita á sameign en vonir standa til þess, að komist jörðin á eina hendi, fari uppbygging af stað. Ríkið hefur forkaupsrétt í 60 daga sem rennur út á hádegi 10. janúar. Ríkið á reyndar allan vesturbakka lónsins, stærstan hluta lónsins sjálfs og það af austurbakkanum sem komið hefur undan jökli síðastliðinn áratug. Þeir sem eiga hagsmuna að gæta hafa fjórar vikur til að bera gildi nauðungarsölunnar undir dómstóla. 

Fögrusalir eru dótturfélag Thule Investments. Forsvarsmenn þess töldu í dag ótímabært að tjá sig um áform þeirra við Jökulsárlón þar sem enn væri óvissa um niðurstöðu málsins, ekki síst hvort ríkið nýti forkaupsrétt.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV