Jón Valur ákærður fyrir hatursorðræðu

29.11.2016 - 14:22
Mynd með færslu
Samtökin lögðu fram kærur gegn tíu vegna hatursorðræðu.  Mynd: RÚV
Jón Valur Jensson, guðfræðingur, hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu vegna þriggja færslna sem birtust á bloggsvæði hans, jonvalurjenson.blog.is. Í ákærunni eru ummælin sögð hafa falið í sér háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótiltekins hóps manna hér á landi vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra.

Jón Valur vildi lítið tjá sig við fréttastofu en sagði ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með öllu tilhæfulausa.  Hann lýsti hneykslan sinni á því sem þarna væri gert - ekkert í skrifum hans væri hægt að flokka sem hatursorðræðu.

Fram kom í fréttum í síðustu viku að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði ákært átta fyrir hatursorðræðu en það voru Samtökin '78 sem kærðu þá í apríl á síðasta ári.  Ummælin voru öll látin falla í tengslum við hinsegin fræðslu samtakanna í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Meðal þeirra sem einnig hafa verið ákærðir er Pétur Gunnlaugsson, útvarpsstjóri Útvarps Sögu. „Ég er bálreiður, ég skal alveg viðurkenna það að einhver lögreglustjóri hér skuli saka mig um þetta,“ sagði Pétur í símatíma á Útvarpi Sögu sem visir.is greindi frá.

Jón Valur er ákærður fyrir þrjár færslur á blogg-síðu sinni  sem hann skrifaði 17. apríl, 20. apríl og 21. apríl. „Fræðsla um fjölbreytileika mannsins“ á ekki að vera á hendi þeirra, sem hafa sína einhæfu, þröngu og skekktu sýn á kynferðismál. Samtökin 78 eru hagsmunasamtök, ekki hlutlægt og hlutlaust fræðasamfélag. Fulltrúar þessa samtaka hafa ekkert með það að gera að móta hugarfar barna, sem þeir eiga ekki […],“ skrifaði Jón Valur í færslu á bloggsíðu sinni þann 21. apríl.

Mál Jóns og Péturs verða bæði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV