Íslenskir unglingar eru ánægðir með lífið

21.04.2017 - 10:06
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir  -  Samfés
Íslenskir unglingar verða síður fyrir einelti í skóla en jafnaldrar þeirra annars staðar í heiminum. Þeir eru hamingjusamari en gengur og gerist, nema þeir sem nota Netið óhóflega, þeir stríða við meiri vanlíðan en aðrir. Þetta kemur fram í þeim hluta PISA-rannsóknarinnar sem snýr að líðan unglinga.

PISA rannsóknin hefur á síðasta áratug orðið helsta mælistika á gæði skólastarfs í heiminum. Í síðustu rannsókn sem gerð var fyrir tveimur árum, var líðan 15 ára unglinga könnuð í fyrsta sinn. 540 þúsund unglingar í 72 löndum tóku þátt í rannsókninni og  þar kennir ýmissa grasa.

Fyrst er til að taka að íslenskir unglingar eru hamingjusamari en meðaltalsunglingurinn og rétt tæplega helmingur íslenskra unglinga segist vera mjög ánægður með lífið. Tæplega 10 prósent þeirra eru þó ekki sátt við lífið. Íslensk skólabörn eru í 4. sæti innan OECD þegar kemur að lífshamingju, á eftir börnum í Mexíkó, Finnlandi og Hollandi.

Strákar eru nær allsstaðar ánægðari með lífið en stelpur, innan OECD er munurinn er að jafnaði 10 prósentustig en hvergi meiri en á Íslandi, þar er hann um 18 prósentustig.

Íslenskir krakkar virðast vera metnaðarfyllri en gengur og gerist, þrír af hverjum fjórum vilja vera á meðal bestu nemenda í sínum bekk og er það talsvert yfir meðaltalinu, sem er tæplega 60 prósent.

Einelti er undir meðaltali hér á landi. Innan OECD-ríkja telja tæp 19 prósent nemenda að þeir verði reglulega fyrir einelti en hér á landi er talan 11,9 prósent. 6,7 prósent íslenskra nemenda finnst að gert sé grín að þeim í skólanum og 2,4 prósent segja að aðrir nemendur beiti þau líkamlegu ofbeldi. Í báðum tilvikum er þetta með því lægsta innan ríkja OECD.

Íslenskir unglingar verja hvorki meiri né minni tíma en aðrir unglingar á Netinu, á virkum dögum eru þeir á Netinu í rúma tvo tíma á dag og um helgar í rúma 3 tíma á dag. Ísland er eitt fjögurra landa þar sem yfir 30% barna voru byrjuð að nota Netið 6 ára eða yngri.

Í skýrslunni kemur fram að fylgni er á milli vansældar og mikillar netnotkunar; þeir sem teljast vera öfgafullir netnotendur og eru á Netinu í 6 klukkustundir eða meira á dag, eru að jafnaði hálfu prósentustigi vansælli en aðrir, verst er ástandið hér á landi; íslenskir krakkar sem nota Netið óhóflega eru heilu prósentustigi vansælli en aðrir.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV