Ísland samstíga Nató í kjarnavopnamálum

11.07.2017 - 07:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland var ekki eitt þeirra hundrað tuttugu og tveggja ríkja sem samþykktu alþjóðlegt lögbann við kjarnavopnum á sérstakri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Utanríkisráðherra segir aðgerðirnar sem boðaðar voru ekki vera raunhæfar. Segir hann Ísland vera á sama stað og þau ríki sem við berum okkur saman við í þessu máli. Samningur um bann við kjarnavopnum var samþykktur af 122 ríkjum á sérstakri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á föstudag.

Stuðningsmenn samningsins vona að kjarnavopn heyri sögunni til og með samþykki hans er mannkynið „einu skrefi nær" því að svo verði, sagði forseti ráðstefnunnar. Mörg ríki Sameinuðu þjóðanna tóku hinsvegar ekki þátt í samningsviðræðunum, þar á meðal mörg aðildarríki NATÓ. Gagnrýndu Bandaríkin samninginn harðlega og var Holland eina ríkið sem kaus gegn samningnum.

Norður-Kóreumenn verði ekki þeir einu með kjarnavopn

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir aðgerðirnar sem boðaðar voru ekki vera raunhæfar. „Við höfum alltaf verið fylgjandi því að hér væri kjarnorkuvopnalaus heimur og viljum að kjarnavopnum sé eytt með gagnkvæmum hætti en það segir sig sjálft að ef kjarnaorkuveldin taka ekki þátt í þessari aðgerð er hún ekki raunhæf.“

Hann segir mikinn árangur þegar hafa náðst í afvopnun. „Til dæmis hefur kjarnavopnum fækkað um 95 prósent frá dögum kalda stríðsins og það gerst undir forystu Nató. Þannig að við erum á sama stað og þær þjóðir sem við berum okkur saman við þegar kemur að þessu máli.“

Aðspurður hvort hann muni beita sér fyrir áframhaldandi afvopnun meðal ríkja Nató svarar Guðlaugur: „Að sjálfsögðu gerum við hvað við getum í því og það er alveg samstaða um það innan Nató. Þess vegna var kjarnaorkuvopnunum fækkað á sínum tíma. En það er gert með þeim forsendum að það er gert með gagnkvæmum hætti. Þannig að Nató-ríkin og önnur ríki í heiminum standi ekki upp með það að einhver ríki, eins og til dæmis Norður-Kórea, væru þeir einu sem væru með kjarnaorkuvopn. Ég held að enginn myndi vilja sjá það.“

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV