„Ísland er heimili brjálæðinga“

01.07.2015 - 13:46
Mynd með færslu
Safnmynd.  Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Andi sinnuleysis og slens vofir yfir eyríkinu Íslandi og eyjaskeggjar eru uppfullir af sjálfsblekkingu, grobbi og hroka. Þetta kemur fram í stórskemmtilegri en rammkaldhæðinni umfjöllun þýska rithöfundarins og stjórnmálamannsins Oliver Maria Schmitt um Ísland í nýjustu bók hans.

Bókin heitir „Ich bin dann mal Ertugrul. Traumreisen durch die Hölle und zurück,“ eða „Ég er farinn til Ertugrul. Draumaferðin í gegnum víti og til baka.“

Kafli bókarinar sem snýr að Íslandi er birtur á vef þýska dagblaðsins Die Welt, og er óhætt að segja að lesturinn sé hressandi. Hún færir lesendum annars konar upplifun ferðamanns af Íslandi en tíðkast hefur undanfarin ár og er síst til þess fallin að lokka fólk til landsins.

Að mati höfundar bærist í brjóstum Íslendinga dýrsæði, óhæfuverk og níðingsháttur; hundrað prósent tómhyggja. Sinnuleysi og slen eru ráðandi hugsunarháttur Íslendingsins, ásamt sjálfsblekkingu, grobbi og hroka. Vegna þroskahömlunar Íslendinga, sem er afleiðing sifjaspells og sódómu í yfir árþúsund, telja þeir sig elskaða af heiminum öllum. Þeir séu einnig sannfærðir um að fyrirbæri á borð við álfa, tröll og Björk Guðmundsdóttur, séu raunveruleg.

„Ísland er jafn stórt og fyrrum Austur-Þýskland, en að minnsta kosti þrisvar sinnum dauðara. Þó búa færri í landinu en í Bielefeld og þeir sem hafa verið svo ólánssamir að hafa komið til Bielefeld vita hvað það merkir. Þetta er eins og Austur-Þýskalandi væri stjórnað af andans jöfrum Bielefeld. Það er Ísland, heimili brjálæðinga,“ segir í kafla bókarinnar.

Schmitt gerir veðurfarið á Íslandi að umtalsefni í bók sinni og honum er ekki skemmt. Það rignir og snjóar til skiptis, myrkur lúrir yfir landinu mánuðum saman og hver sá, sem reynir að yfirgefa þetta vonleysi, er skotinn niður með hvalveiðiskulti. Að mati Schmitt falla ferðamenn í þá gildru að telja þetta umhverfi heillandi. Eyjan í norðri sé hins vegar illa lyktandi og uppfull af reykjarmekki sem á einhvern óskiljanlegan hátt sé seld ferðamönnum sem eftirsóknarverð upplifun.

Reykjavík fær sinn skammt í reiðilestri Schmitt. Höfuðborg Íslands er fyrir honum með öllu vonlaus. Í gegnum ljóslaus, þráarlyktandi stræti höfuðborgarinnar er maðurinn minntur á ægivald dauðans og fánýtisins: „Hinn fáránlega þröngi Laugarvegur er stútfullur af bílum og ungu fólki sem stendur ekki í lappirnar, fólki sem hefur nýlega hafið æfingar við að verða alkahólistar í fullu starfi. Á fokdýrum diskótekum og klúbbum dansa smekklausir og húðgataðir unglingar. Þeir dansa fram að lokun, undir hjartslætti hræðilegrar tónlistar.“

Ekki þarf að taka fram að Schmitt telur tungumálið, íslensk stjórnmál, matarmenningu og margt, margt fleira Íslandi til foráttu í annars stórskemmtilegri umfjöllun um land og þjóð.

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV