ÍBV hangir áfram í Haukum - Mikil spenna

20.03.2017 - 21:43
Spennan heldur áfram að harðna bæði á toppi og á botni úrvalsdeildar karla í handbolta. Í kvöld voru tveir leikir spilaðir í deildinni. Afturelding vann Stjörnuna, 30-28 og ÍBV burstaði Selfoss, 36-27. ÍBV er aðeins tveimur stigum á eftir toppiði Hauka og mætir Haukum í næstu umferð Olís-deildarinnar.

Afturelding var fyrir leik kvöldsins komið niður í fjórða sæti með 27 stig en Stjarnan hefur verið í botnbaráttu það sem af er vetri. Garðbæingar hafa hins vegar átt nokkra góða leiki inn á milli í vetur og þeir mættu mjög grimmir til leiks í Mosfellsbæinn í kvöld. Fyrri hálfleikur var alveg í járnum og að honum loknum var staðan jöfn, 15-15. Spennan var áfram mikil í seinni hálfleik en á síðustu mínútum leiksins sigu heimamenn í liði Aftureldingar fram úr og fögnuðu að lokum tveggja marka sigri. Úrslitin 30-28 fyrir Aftureldingu.

Yfirburðir ÍBV á móti Selfossi

Á Selfossi var svo suðurlandsslagur Selfoss og ÍBV. Eyjamenn hafa ekki tapað leik í deildinni eftir áramót og eiga í harðri toppbaráttu, en Selfyssingar hafa verið um miðja deild. Eyjamenn sýndu allar sínar bestu hliðar í fyrri hálfleik í kvöld og röðuðu inn mörkunum. Að loknum fyrri hálfleik munaði níu mörkum á liðunum, en þá var staðan orðin 20-11 fyrir ÍBV.

Ekki hjálpaði það Selfyssingum svo að mjög snemma í seinni hálfleik var Guðni Ingvarsson línumaður Selfoss dæmdur brotlegur fyrir að stoppa Theodór Sigurbjörnsson í liði ÍBV. Dómarar leiksins ráku Guðna af velli með rautt spjald og eyjamenn héldu áfram að bæta í forystu sína og náðu mest tólf marka forskoti í seinni hálfleik. Þegar leið á seinni hálfleikinn gátu eyjamenn leyft sér að hvíla lykilmenn, en unnu engu að síður öruggan níu marka sigur, þar sem lokatölur urðu 36-27 fyrir ÍBV.

Spennan mikil á lokametrunum

Staðan í deildinni þegar þrjár umferðir eru eftir er þá þannig að ÍBV er nú aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Hauka og ÍBV og Haukar mætast einmitt í næstu umferð í Vestmannaeyjum. Afturelding komst upp að hlið FH, en FH á þó leik til góða við Gróttu. Spennan í neðri hlutanum er svo gríðarlega mikil. En aðeins munarþremur stigum á sjötta og tíunda sæti deildarinnar.

Svipmyndir úr leikjum kvöldsins og viðtöl eftir leik Selfoss og ÍBV má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

 

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður