Hvaða miðverði skal nota á móti Kósóvó?

20.03.2017 - 19:30
Knattspyrnusérfræðingur RÚV segir að það muni reyna á varnarleikinn hjá Íslandi þegar íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Kósóvó í undankeppni HM 2018 á föstudag. Miðvarðaparið sem spilað hefur nær alla leiki Íslands síðustu ár, hefur lítið spilað að undanförnu með félagsliðum sínum.

Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson eru báðir í landsliðshóp Íslands fyrir leikinn við Kosovo á föstudag. Kári hefur þó ekki spilað með félagsliði sínu vegna meiðsla síðan 11. febrúar og þó að Ragnar sé ekki meiddur hefur ekki spilað heilan leik með Fulham síðan 8. janúar. Á sama tíma banka menn eins og Sverrir Ingi Ingason á dyrnar í stöðu miðvarðar, en Sverrir er fastamaður hjá Granada í efstu deild Spánar og skoraði meðal annars um helgina.

Efast um að Kári sé í besta standi

„Kári er að verða 35 ára, og ef hann er ekki í besta standi núna, sem ég leyfi mér reyndar að efast um. Hann var með brákað rifbein held ég, og hefur ekki spilað í nokkrar vikur. Ef hann er ekki upp á sitt besta, þá myndi ég vilja skipta Kára út fyrir Sverri Inga og vera með Ragga áfram í vörninni. Ég er viss um að Raggi sé mjög þyrstur í að spila. Hann er heill, þó hann sé ekki að spila með Fulham. Hann hlýtur að vera að hugsa til hreyfings eftir þetta tímabil, og þá verður hann að standa sig vel með landsliðinu eins og hann hefur reyndar alltaf gert,“ segir Pétur Marteinsson fyrrverandi landsliðsmiðvörður og sparkspekingur RÚV.

Pétur Marteinsson telur mikilvægt að varnarlínan hjá Íslandi standi vel í leiknum á föstudag. „Við munum líklega vera meira með boltann í leiknum en oft áður. Þá reynir meira á varnarleikinn en það kannski hljómar, því við munum fá hraðar sóknir á okkur og við erum ekkert vanir því,“ segir Pétur.

Gríðarlega mikilvægur leikur

En hvaða væntingar er hægt að gera til íslenska landsliðsins á föstudag? „Við förum þarna út til þess að vinna. Við ætlum okkur pottþétt að vinna þennan leik og þetta er gríðarlega mikilvægur leikur, því næsti leikur er heima á móti Króatíu í júní. Ef við ætlum okkur að komast á HM í Rússlandi, þá verðum við að vinna þennan leik, það er alveg ljóst,“ segir Pétur.

Leikur Íslands og Kósóvó hefst klukkan korter í átta á föstudag og verður sýndur beint á RÚV og lýst í útvarpinu á Rás 2.

Fréttina má sjá í spilaranum hér fyrir ofan, en lengri útgáfu af spjalli við Pétur Marteinsson um leikinn við Kósóvó á föstudag má sjá hér beint fyrir neðan.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður