Hvað er greitt fyrir takmarkaða auðlind?

06.04.2017 - 20:37
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Fiskeldisfyrirtæki keppast við að sækja um leyfi fyrir fiskeldi í sjó. Fyrirtækin greiða fyrir umhverfismat, rekstrarleyfi og starfsleyfi og svo í umhverfissjóð og hefur verið gagnrýnt hversu lítið greitt er fyrir þessa takmörkuðu auðlind. Sjávarútvegsráðherra telur að greinin skuli greiða auðlindagjald eins og aðrar greinar sem reiða sig á takmarkaðar auðlindir. Margt er ekki metið til fjár, hvorki samfélagsleg áhrif né ósnortið lífríki og náttúra. En hvað er greitt í peningum?

Burðarþolsmat forsenda fyrir leyfi

Forsendur fyrir því að rekstarleyfi eru gefin út er að burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar, eða viðurkennds aðila, á viðkomandi sjókvíaeldissvæði liggi fyrir. Mat á því hversu mikið lífrænt álag tiltekinn fjörður þolir. Í lögum um fiskeldi segir að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem felur í sér meiri framleiðslu en firðirnir þola. Því verður einungis hægt að veita leyfi fyrir takmörkuðu magni og fyrirtækin keppast við að tryggja sér hluta þeirra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þeir firðir sem búið er að burðarþolsmeta

„Það er auðvitað á vissan hátt veikleiki í þessu fyrirkomulagi sem við erum með því að það er tilhneiging til að sækja um leyfi til að marka sér einhvern sess,“

sagði Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, í Kastljósi.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Burðarþol Ísafjarðardjúps var nýlega metið 30 þúsund tonn

Greiða mest fyrir umhverfismat

Fiskeldisfyrirtækin hafa meðal annars svarað gagnrýni um hve lítið kostar að fá leyfi fyrir fiskeldi með því að benda á að fyrirtækin greiða fyrir umhverfismat. Til að hefja fiskeldi í sjó ber fiskeldisfyrirtækjum að tilkynna áform sín til Skipulagsstofnunar sem metur hvort að framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat. Fyrirtækin ráða þá til sín fyrirtæki sem vinna umhverfismat fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum. Samkvæmt Kristjáni Jóakimssyni, framkvæmdastjóra vinnslu- og markaðssviðs hjá Háafelli, sem er með leyfi fyrir eldi í Ísafjarðardjúpi, nam kostnaður við umhverfismat fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi 40-50 milljónum og Kristian Matthíasson, forstjóri Arnarlax, segir að hvert umhverfismat sem fyrirtækið láti framkvæma fyrir sig kosti um 40 milljónir. Leyfin, starfsleyfi og rekstrarleyfi, kosta hins vegar um eina milljón samtals.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristian Matthíasson, forstjóri Arnarlax

Leyfin kosta mun minna en í Noregi

Þegar álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir um mat á umhverfisáhrifum getur fiskeldisfyrirtæki lagt inn umsókn fyrir rekstarleyfi til MAST og á sama tíma fyrir starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Fiskeldisfyrirtækin greiða fyrir þjónustugjald stofnananna og kostnaður starfsleyfis- og rekstarleyfis eru um milljón, fer eftir umfangi rekstrarins. Það er mun  minna en í Noregi þar sem leyfi kosta um 150 milljónir, þau renna hins vegar ekki út.

„Leyfin á Íslandi og Noregi er ekki alveg sama dæmi. Í Noregi þá áttu leyfi. Þú kaupir leyfi af ríkinu og þú átt það og mátt gera það sem þú vilt með það. Á Íslandi ertu með leyfi á leigu frá ríkinu í 10 ár og svo þarftu að endurnýja þetta,“

sagði Kristian Matthíasson, í Kastljósinu. Eftir þessi tíu ár eru hægt að sækja um endurnýjun rekstrarleyfa, án þess að fara í gegnum sama ferli og þegar sótt er um í upphafi. Starfsleyfin gilda í 16 ár.

Hafa áhyggjur af „nýju kvótakerfi“

Í lögum um fiskeldi segir:

„Framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis án skriflegs samþykkis [Matvælastofnunar] er óheimil. Slíku samþykki skal þinglýst í samræmi við ákvæði þinglýsingalaga.“

Soffía Karen Magnúsdóttur, fagsviðsstjóri Fiskeldis hjá Matvælastofnun, telur að ekkert í lögum komi í veg fyrir því að leyfi séu framseld á milli fyrirtækja svo lengi sem að fyrirtæki uppfylli kröfur sem Matvælastofnun setur um rekstrarleyfishafa.

Selfoss Verslun miðstöð verlunarmiðstöð Bónus Hagkaup
 Mynd: Jónsson Jónsson  -  Jóhannes Jóhannes
Matvælastofnun sér um að veita rekstrarleyfi fyrir fiskeldi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávartúvegsráðherra, segir meðferð leyfa vera meðal þess sem að nefnd um stefnumótun í fiskeldi hefur á sínu borði. Hún segist kannast við áhyggjur fólks af því að fyrirkomulag leyfiskerfisins, eins og það er í dag, geti skapað „nýtt kvótakerfi.“

Til framsals þarf samþykki Matvælastofnunar. Soffía Karen segir að forsendur fyrir samþykki stofnunarinnar séu:

„Að það liggi fyrir samþykki beggja aðila. Eins og er eru ekki neinar aðrar forsendur sem geta staðið í vegi fyrir framsali ef fyrirtækin uppfylla kröfur rekstrarleyfis.“

Soffía Karen segir að líkt og þegar rekstrarleyfisumsóknir eru teknar til skoðunar þá þurfi fyrirtækin að sýna fram á að þau ætli að hefja rekstur á því magni sem þeir eru að sækja um leyfi fyrir og hafi fjárhagslegt bolmagn til að gera það.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einar K. Guðfinssson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva

Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands Fiskeldisstöðva, vísaði því á bug í Kastljósinu að verið væri að búa til nýtt kvótakerfi:

„Nei, alls ekki, því hér er um að ræða leyfi til takmarkaðs tíma – til mjög fárra ár.“

Kapphlaup til að skapa sér sess

„Þetta hefur verið alveg stjórnlaust,“

sagði Óðinn Sigþórsson, fyrrverandi formaður Landssambands veiðifélaga í Kastljósi. Hann var þar gestur ásamt Bjarna Jónssyni, fiskifræðingi og varaþingmanni og Einari Kr. Guðfinnssyni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óðinn Sigþórsson, Einar K. Guðfinnsson og Bjarni Jónsson

„Regluverkið er ekki tilbúið fyrir svona áhlaup eins og er núna [...] þetta er kapphlaup á leyfin og til að loka því að aðrir komist inn í greinina"

sagði Bjarni Jónsson, að þótt farið sé að lögum og reglum sé fyrirkomulagið stjórnlítið.

„Þegar það er verið að tala um að þetta fari hratt, er verið að tala um að snigillinn fari hratt,“

sagði Einar Kr. Guðfinnsson. Þar sem leyfisferlið sé langt og strangt ferli og taki mörg ár.

Samkeppnissjóður fyrir rannsóknir

Rekstrarleyfishöfum í sjókvíaeldi ber að greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR (SDR=152 krónur, 10. apríl 2017)  fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi sem rennur til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Ef miðað er við að fiskeldisfyrirtækin séu með 40 þúsund tonna leyfi þá eru greiddar 73 milljónir í sjóðinn. Greitt er í sjóðinn fyrir þau tonn sem leyfi er fyrir þrátt fyrir að rekstur eldisins sé ekki farinn af stað.

Úthlutað hefur verið úr sjóðnum þrisvar sinnum. Árið 2015 var 38 milljónum úthlutað til þriggja verkefna, árið 2016 var úthlutað 40 milljónum til 7 verkefna og í ár 87 milljónum til 10 verkefna.

 

Þorgerður Katrín bindur vonir við sjóðinn:

„Sjóðurinn er að koma sér vel til að byggja grunninn undir þær ákvarðanir sem við þurfum síðar að taka.“

Hún telur að á þessu ári gæti farið svo að úr sjóðnum verði úthlutað 80-90 milljónum sem áfram verður úthlutað til rannsókna.

„Til framtíðar þá bindi ég vonir við að við munum sjá hér öflugar rannsóknir á sviði fiskeldis, á sviði lífríkis, náttúru og umhverfis en líka að við förum að skoða hvaða hagrænu áhrif fiskeldið hefur á hinar dreifðu byggðir landsins.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra

Ráðherra vill auðlindagjald

„Greinin sem slík eins og aðrar atvinnugreinar sem að hafa aðgang og fá aðgang að takmarkaðri auðlind þurfa að greiða auðlindagjald. Hvaða leiðir við förum, það er sáttanefndar að finna út sem ég mun skipa innan tíðar og verður skipuð fulltrúum allra flokka,“

sagði sjávarútvegsráðherra í fréttum RÚV. Hún vill að skoðað verði hvert auðlindagjaldið rennur og meðal annars skoða hlutdeild sveitarfélaga og uppbyggingu innviða þar sem eldi fer fram.

Vilja auka hlutdeild sveitarfélaga 

Sveitarfélög hafa kvartað yfir hlutdeild sinni varðandi fiskeldi. Bæði hvað varðar tekjur af fiskeldi og skipulagsvald. Hafa bæjaryfirvöld til dæmis kallað eftir því að fá skipulagsvald yfir hafsvæðum en samkvæmt nýju frumvarpi á svokallað svæðisráð að fara með skipulagsvaldið. 

Þótt sveitarfélög eru umsagnaraðilar fiskeldis í sjó þá eru engar beinar tekjur af eldinu sem renna til sveitarfélagsins fyrr en farið er að slátra. Þá renna aflagjöld í hafnarsjóð. Á síðasta ári námu tekjur hafnarsjóðs í Vesturbyggð, þar sem mest var slátrað af eldisfiski á landinu, 35 milljónum króna, þá var skattaspor fyrirtækisins Arnarlax 616 milljónir og voru 377 milljónir af því greiddar í tekjuskatt starfsfólks.  

Ráðherra er á því að skoða hlutdeild sveitarfélaga varðandi auðlindagjaldið:

„Það þarf líka að huga að þeim innviðum sem þarf að byggja upp í tengslum við fiskeldið. Að það fari fjármagn í þessar byggðir landsins sérstaklega fyrir vestan og austan land. Það er að ýmsu að hyggja,“

segir Þorgerður Katrín.

„Það er líka eitthvað sem hefur verið talað um sérstaklega. Að byggja innviðasjóð sem taki til þeirra svæða þaðan sem helstu greiðslurnar koma. – Ég vil skoða þetta með sveitarfélögunum, ég skil þeirra raddir mjög vel.“ 

Óttast samkeppni sveitarfélaga 

Arnarlax er með umsókn í ferli fyrir 10.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi og til stendur að slátra laxinum í Bolungarvík. Jón Páll Hreinsson er bæjarstjóri í Bolungarvík: 

„Það á að leggja gjöld. Ríkið verður að ákvarða gjöldin sem renna þá til sveitarfélagsins eða að hluta til sveitarfélagsins. Mikilvægt að ríkið ákvarði gjöldin til að forðast það að sveitarfélög keppi sín á milli um viðskipti eldisfyrirtækjanna.“

Hann bendir á að sveitarfélög hafi nú þegar heimilid til að lækka aflagjöld af eldisfiski og geti þannig farið í samkeppni sín á milli, sem gæti þá jafnvel fært vinnsluna fjarri eldinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík

Í eigu stórra fyrirtækja

Í Kastljósi kom fram að fyrirtækið Arnarlax, sem er umsvifamesta fiskeldisfyrirtækið á Íslandi, er metið á rúmlega 20 milljarða. Stærsti hluti fyrirtækisins er í eigu Salmar sem er þriðja stærsta fiskeldisfyrirtæki í heimi. Norðmenn eiga einnig stóra hluti í Löxum fiskeldi fyrir austan og Arctic Fish fyrir vestan.