Húsbyggingadrama slær í gegn

20.03.2017 - 16:02
Árið 1999 voru þættirnir Grand Designs frumsýndir á bresku sjónvarpsstöðinni Channel 4 við góðar viðtökur. Nú eru komnar sautján seríur af þessu einstaka bygginga-raunveruleikasjónvarpi og vinsældirnar fara enn vaxandi. Nýlega fóru þættirnir í sýningu á streymisveitum í Bandaríkjunum og eru nú einnig aðgengilegir íslenskum áhorfendum á Netflix.

Gamlir draumar rætast

Í hverjum þætti kynnir þáttarstjórnandinn og hönnuðurinn Kevin McCloud áhorfendur fyrir þáttakendum sem eru að leggjast í metnaðarfullt og óvenjulegt byggingarverkefni. Yfirleitt er um að ræða hjón eða barnafjölskyldur sem eru að láta gamlan draum rætast. Annaðhvort er um að ræða nýbyggingu frá grunni eða eldri byggingu sem á að gera upp eða jafnvel breyta úr iðnaðar- eða þjónustubyggingu yfir í íbúðarhúsnæði. 

Bresk dómharka

Kevin fer í nokkrar heimsóknir á byggingarsvæðið  á meðan ferlinu stendur, og síðan kemur að lokaheimsókn í lok þáttar, þar sem íbúarnir eru fluttir inn og búnir að koma sér fyrir. Farið er í túr um húsið þar sem Kevin gefur verkinu umsögn, og fer ekkert endilega fínt í hlutina ef honum finnst að eitthvað hefði mátt betur fara. Að því leytinu halda þættirnir í hefð breskra raunveruleikaþátta þar sem dómararnir eru óvægnari við þáttakendur en gerist og gengur í alþjóðlegum systurútgáfum.

Framúrstefnuleg hönnun

Oft eru þekktir eða rísandi arkítektar fengnir í verkefnin og byggingarnar eru oft framúrstefnulegar og jafnvel umdeildar þar sem þær eru. Niðurnídd hús fá nýtt notagildi og geta í einhverjum tilfellum haft áhrif á sjálfsmynd heilu bæjarfélaganna. Grand Designs hafa í gegnum tíðina birst í nokkrum mismunandi útgáfum, og sem dæmi má nefna Grand Designs Abroad, þar sem þættirnir heimsækja framkvæmdir á Spáni, í Frakklandi og á Ítalíu. Einnig er til serían Grand Designs Indoors sem tekur fyrir innanhússhönnun.

Tilfinningaferðalag

Viðfangsefnið er mjög áhugavert fyrir margar sakir. Framkvæmdir af þessu tagi geta tekið á fólk andlega og það er oftar en ekki mikið tilfinningaferðalag fólgið í því að koma slíku verkefni í höfn.
Kevin McCloud gerir þættina síðan enn betri með því að kafa í persónulegar aðstæður og baksögu þeirra sem byggja, sem setur hlutina í áhugavert samhengi. Sömuleiðis talar hann um samfélagið þar sem byggingin er, fræðir áhorfendur um sögu bygginga og arkítektúrs, og síðast en ekki síst skoðar hann á spennandi hátt tilfinningasambönd fólks við persónulegt rými.

11. og 12. sería Grand Designs eru aðgengilegar á Netflix.