Hundraða manna verkföll hefjast

07.04.2015 - 08:24
Landspítalinn við Hringbraut.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Rúmlega 500 félagsmenn Bandalags háskólamanna á spítölum landsins og öðrum stofnunum fara í verkföll í dag. Fresta þarf meginþorra skipulagðra aðgerða á Landspítalanum í dag vegna verkfallanna. Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, býst við að þar verði aðgerðum einnig frestað í dag.

Allri bráðaþjónustu Landspítalans verður sinnt. Engir fundir í kjaradeilu BHM og ríkisins voru haldnir um helgina. Páll Halldórsson, formaður BHM, gagnrýndi í gær að ríkið hefði varið tíma í að reyna að fá verkfallsaðgerðirnar dæmdar ólögmætar í stað þess að leggja til lausnir í deilunni. Ekki náðist í Gunnar Björnsson, formann samninganefndar ríkisins, í morgun.

Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, býst við að aðgerðum verði frestað í dag vegna verkfalls lífeindafræðinga á spítalanum sem hófst klukkan átta. Lífeindafræðingar á spítalanum, og annars staðar, ætla að leggja niður störf til hádegis alla virka daga þar til samið verður í kjaradeilum BHM við ríkið.

„Það hefur heilmikil áhrif,“ segir Bjarni. „Það kemur til með að raska verulega þeirri starfsemi sem fer fram á sjúkrahúsinu á hverjum degi.“ Hann segir að það gerist fyrst og fremst með því að rannsóknum sem gera þarf áður en hægt er að taka ákvarðanir um frekari meðferð seinki og þær truflist. Það komi til með að hafa áhrif á þær fyrirfram skipulögðu aðgerðir sem gerðar eru.