Hrátt og bikað þjóðlagarokk

Bellstop
 · 
Gagnrýni
 · 
Jaded
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Hrátt og bikað þjóðlagarokk

Bellstop
 · 
Gagnrýni
 · 
Jaded
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
28.04.2017 - 11:20.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Bellstop er alla jafna dúett þeirra Rúnars Sigurbjörnssonar og Elínar Bergljótardóttur. Jaded er önnur breiðskífa þeirra og er innihaldið nokkurs konar þjóðlagarokk; kröftugt, þvælt, skítugt og giska áleitið. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ég sá Rúnar Sigurbjörnsson fyrst þar sem hann engdist upp á sviði með hinni mjög svo ágætu sveit Náttfara í upphafi aldarinnar, spreyjandi silfruðu síðrokki yfir salinn af miklum móð í gegnum viðgjafarríkan gítarinn. Síðar gaf hann út prýðilega sólóplötu sem fór lágt, Solitude, og stuttu eftir það fluttu hann og Elín kona hans til Kína. Hafa þau músiserað saman síðan (og höfðu eitthvað gert af því áður líka) og þrjár plötur hafa komið út, platan The Long Road Home kom út 2009 undir nafninu Heima en fyrsta plata Bellstop, Karma, kom út 2013.

Prýðilegt

Bellstop lýsa tónlistinni sem „folk & roll“ og það er prýðileg lýsing. Það er verið að vinna með ýmis minni úr þjóðlagatónlist, bæði frá Ameríku og Englandi en framreiðslan er með rokkuðum hætti. Og maður heyrir t.a.m. í fyrri verkum Rúnars í gegnum lögin, myrkrið og melankólían sem lék um Solitude, knýjandi og á stundum ofsafenginn gítarleikurinn í Náttfara (Rúnar er hörkugítarleikari). Lögin eru kröftug og áleitin og flutningurinn ástríðufullur, söngrödd Rúnars er rifin og hrá og Elín er orkurík og innblásin.  Maður kemst t.a.m. ekki undan lögum eins og „Anxiety“ þar sem tvíeykið seyðir mann til sín með tilþrifum. Hluti af þessu er líka þéttur og góður hljómur en hinn breski Leigh Lawson vélaði um þar.

Sigur

Lögin raða sér á þetta þjóðlagarokksróf sem ég nefndi; það er drama og drungi í gangi, gotaleg áhrif eiginlega og stundum erum við að flækjast um eyðimörkina með blindandi sól í augunum. Lagasmíðar eru misvel heppnaðar, „Stalker Blues“ er t.a.m. rífandi blús sem hittir beint í mark, mikil keyrsla og ýlfrandi svalur gítar. Hin hliðin á peningnum eru lög sem detta ofan í full miklar Cave/Waits/Lanegan klisjur, þar sem sungið er um hrafna, brotin bein og Guð almáttugan. Í gegnum plötuna má heyra sitt lítið af hverju hvað þetta varðar, stundum innan eins og sama lagsins. Upphafslagið, „Jade“, byrjar t.a.m. á ekkert alltof lofandi inngangi en svo er skipt harkalega um gír og eitthvað sem mætti kalla Bellstop-hljóminn ryðst – sem betur fer – inn með látum. Platan sigrar á framreiðsluþættinum eins og segir; spilamennska, söngur og hljómur laða að og trompa flestallar misfellur í lagasmíðum þegar allt er saman tekið.

Tengdar fréttir

Tónlist

Bellstop – Jaded

Tónlist

Óreyndir en efnilegir

Tónlist

Epískt, gítarhlaðið indírokk

Tónlist

Allt hefur breyst, ekkert hefur breyst