Hlíðarfjall verði sett í einkarekstur

06.09.2016 - 19:40
Eina leiðin til að skíða- og útivistarsvæðið í Hlíðarfjalli þrifist er að einkaaðilar taki við rekstri þess, að mati Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Formaður bæjarráðs Akureyrar vill láta á þetta reyna.

Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, AFE, var falið að kanna möguleika á breyttu rekstrarfyrirkomulagi skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á síðasta ári að beiðni Akureyrarbæjar. Niðurstaðan er sú að í raun sé eini möguleikinn, á því að svæðið geti þróast áfram og að þar verði til tekjur allan ársins hring, sá að einkaaðili sjái um rekstur svæðisins. Eignir Akureyrarbæjar verði settar í eignarhaldsfélag og einkaaðilum boðið að koma þar inn með hlutafé. Það félag fái síðan ráðstöfunarrétt yfir landi Hlíðarfjalls í 35 ár.

Þó er tekið skýrt fram að gæta verði hagsmuni ríkis, sveitarfélags, keppnisiðkenda og almennings. Gæta þurfi þess sérstaklega að miðaverð hækki ekki meira en annars hefði orðið. Íþróttaráð bæjarins hefur lagt til að unnið verði eftir þessum tillögum og næst tekur bæjarráð málið fyrir.

„Það þarf meiri uppbyggingu hér í fjallinu og það eru kostnaðarsamar framkvæmdir, og við höfum svona kannski verið að reyna að draga úr framkvæmdum. Við viljum samt sjá uppbyggingu hér í Hlíðarfjalli og þetta er þá leið til þess og við viljum sannarlega láta á þetta reyna,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar.

Fari svo að bæjarráð og bæjarstjórn samþykki að fara þessa leið er óvíst um hve langur tími mun líða þar til reksturinn verður kominn í hendur annarra en bæjarins. Líkt og AFE bendir á, þurfi sérstaklega að gæta að miðaverði.

„Við munum, eins og við höfum alltaf gert, við reynum að hafa hag bæjarbúa að leiðarljósi. Það er náttúrulega líka hagur okkar að fá hingað fleiri ferðamenn en við höfum líka lagt á það áherslu að þetta sé fjölskyldusport og almenningur eigi kost á að stunda það án þess að borga alltof mikla peninga fyrir,“ segir Guðmundur Baldvin. 

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV