Hin erindislausa reiði

Lestin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni

Hin erindislausa reiði

Lestin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
11.04.2017 - 17:00.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
Sóla Þorsteinsdóttir fjallar í dag um jákvæðar hliðar reiðinnar. Hvað gerist þegar við beislum reiðina? Getur hún virkað sem drifkraftur fyrir bættu samfélagi, þegar fátt annað virðist gera nokkuð gagn?

Sóla Þorsteinsdóttir skrifar: 

Í dag langar mig að fjalla um reiði, en ekki á hinum hefðbundnu nótum. Við höfum stillt reiði upp sem neikvæðu afli í nútímasamfélagi, en núna vil ég skoða reiði sem drifkraft fyrir aktívisma og breyttu samfélagi. Sálfræðirannsóknir hafa sýnt fram á að reiðin, þetta margslungna fyrirbæri sem hún er, getur verið til góðs, ef við beislum kraftinn sem hún getur leyst úr læðingi.

Kveikjan að hugleiðingum dagsins er pistill sem Lára Björg Björnsdóttir skrifaði fyrir Kjarnann á dögunum sem bar titilinn #teamreiði. Í honum hamrar Lára Björg á þeirri mikilvægu staðreynd að við fáum litlu breytt varðandi kynjamisrétti og launahalla ef við ætlum sífellt að stinga höfðinu í sandinn og brosa kurteisislega þegar við sjáum það svart á hvítu að brotið sé á réttindum kvenna. Að það sé tímaskekkja fólgin í því hvernig við tölum til kvenna sem neita að lækka í sér róminn og bíða eftir því að einhver annar taki af skarið. Að stundum sé reiði drifkraftur, hún komi hlutunum í verk og fái okkur til að hrista af okkur slenið.

Það er nefnilega ansi margt sem bjátar á í nútímasamfélagi sem ég er reið yfir. Ég er reið yfir ástandinu í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, ég er reið yfir því hve lítið við aðhöfumst í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, bara því við erum of vanaföst og viljum halda í lífsgæði okkar. Á sama tíma er ég reið yfir því að horfa upp á bilið milli fátækra og ríkra aukast, og aukast og aukast. Ég er reið yfir því að átröskun sé enn jafn algeng og raun ber vitni. Að sjálfsvígstíðni ungra karla á íslandi er enn átakanlega viðvarandi staðreynd. Að kynferðisofbeldi sé jafn mikið vandamál og raun ber vitni. Að ofbeldi fái enn að grassera. Að ég fái ekki neinu af þessu breytt.

Ég er reið yfir því hve fljótt mér fallast hendur, og ég er reið yfir því að einhverjum finnist ég ekki eiga erindi til að vera reið. Víst verð ég reið. Að vera reið eða reiður þarf ekki að vera neikvæð tilfinning í sjálfu sér. Stundum er ekkert nema reiðin sem drífur okkur áfram. Reiðin í þessum skilningi er ekki ofbeldi, að því leyti að bara vegna þess að mér þykir brotið á mér, þýðir það ekki endilega að ég þurfi að brjóta á næsta manni. Reiði er ekki bara tilfinningin sem við tengjum við slagsmál, rifrildi eða ósætti. Nei, hún getur verið jákvætt afl, og raunar hafa sálfræðingar talað um hina uppbyggjandi reiði, í þessu samhengi.

 

Það felst í hugmyndinni um breytingu, að við förum úr okkar vanabundna umhverfi yfir í eitthvað nýtt, og það getur verið óþægilegt. Breyting væri ekki breyting ef þú fyndir ekki fyrir henni. Og þess vegna þurfum við að hafa fyrir hlutunum, hafa fyrir því að brjóta upp ráðandi fyrirkomulag. Hafa konur virkilega fengið sínu framgengt með því að vera stilltar? Höfum við ekki einmitt náð okkar markmiðum þegar við höfum spyrnt hælum í jörðina og sagt hingað og ekki lengra?  Mér nægir í því samhengi að nefna súfragetturnar, sem börðust fyrir kosningarétti kvenna fyrir rétt rúmlega hundrað árum. Eða enn nærtækara dæmi. Íslenskir hjúkrunarfræðinemar hafa staðið í ströngu að undanförnu þar sem þær neituðu að láta bjóða sér afkáralega lág laun á landsspítalanum og fóru með það í fjölmiðla að þetta væri óboðlegt. Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar færu frekar að vinna annars staðar. Þær þögðu ekki, og voru reiðar. Hvað hefur svo komið í ljós? Heilbrigðisráðherra virðist vera að taka laun hjúkrunarfræðinga til skoðunar. Af því ungar konur innan stéttarinnar höfðu hátt, og börðust fyrir sínum málsstað.

En hvernig læt ég… ég ætti kannski bara að kyngja þessari kergju, brosa meira og vera til friðs. Það er allt að fara til fjandans, en nei… í guðs bænum, höldum friðinn. Eða hvað? Er það ekki ljóst að við þurfum að hrista upp í hlutunum? Aktívisminn er löngu orðinn neysluvara, en við getum hrifsað hann aftur til okkar ef við neitum að láta bjóða okkur þetta. Og fyrsta skrefið er að vera reiður, það er bara þannig.