Heimildarmynd: Reykjavík Festival

Reykjavik festival
 · 
RÚV
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Heimildarmynd: Reykjavík Festival

Reykjavik festival
 · 
RÚV
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
04.07.2017 - 16:33.Vefritstjórn.RÚV
Fílharmóniuhljómsveit Los Angeles stóð í apríl fyrir tíu daga tónlistarveislu tileinkaðri íslenskri tónlist. Bræðurnir Unnsteinn Manuel og Logi Pedro, ásamt Haraldi Jónssyni voru á ferð í borg englanna og náðu að fanga brot af tónlistarsprengjunni íslensku, Reykjavík Festival, sem birtist hér í stuttri heimildarmynd.

Hátíðin var tileinkuð íslenskri tónlist, með áherslu á ung íslensk tónskáld, eins og Önnu Þorvalds, Maríu Huld Markan, Pál Ragnar Pálsson og fleiri, en einnig komu við sögu fjölmargir flytjendur úr ýmsum áttum, allt frá hljómsveitum eins og Múm og Amiinu, til tónlistarmanna eins og Skúla Sverrisonar og Ólafar Arnalds, Vikings Heiðars og Nordic Affect, ásamt mörgum fleirum. Þá hélt Sigur Rós þrenna tónleika ásamt Fílharmóníunni og íslenska kórnum Schola Cantorum, og músin Maximus Musikus leiðsagði börnum á tveimur sérstökum barnatónleikum. 
 
LA Phil, ein stærsta menningarstofnun í heiminum í dag, hefur verið í samstarfi við tónskáldið og stjórnandann Daníel Bjarnason um nokkurra ára skeið, og hefur fylgst náið með þróun og þæfingum í íslensku tónlistarlífi.
Hljómsveitin réði Daníel, ásamt einu allra stærsta nafni sígildrar- og samtímatónlistar í dag, Finnanum Esa Pekka Salonen, til þess að vera listrænir stjórnendur að Reykjavík Festival, hátíð í tveimur hlutum sem fór fram í Disney Hall tónleikahöllinni í apríl og maí. 

Fyrri hlutinn, 7. til 17. april, var tileinkaður íslenskri samtímatónlist og seinni hlutinn, 20. maí til 3. júní, var tileinkaður Björk, en hún kom fram á einum tónleikum auk sýndarveruleikasýningar sem sett upp var í Disney Hall.
 
Bræðurnir Unnsteinn Manuel og Logi Pedro, ásamt Haraldi Jónssyni voru á ferð í borg englanna, í aprílmánuði og náðu að fanga brot af tónlistarsprengjunni íslensku, Reykjavik Festival, sem birtist hér í stuttri heimildarmynd sem unnin var í samráði við bæði MBL sjónvarp og ÚTÓN.
Klippingu annaðist Haraldur Sigurjónsson.