„Hef alltaf verið heillaður af geðsjúkdómum“

12.03.2017 - 16:04
Tónlistarmaðurinn Helgi Valur Ásgeirsson, sem vakti m.a. athygli í Söngvakeppninni á síðasta ári, hefur lengi glímt við andlega erfiðleika, áfengi og vímuefni. Hann segist lengi hafa fegrað geðsjúkdóma en þegar hann ræktaði mér sér slíkann sjúkdóm sjálfur hafi rómantíkin horfið fljótt.

Jón Ársæll ræðir við Helga Val Ásgeirsson í næsta þætti af Paradísarheimt, sem er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20.15. Hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.

Helgi Valur ólst upp í Hveragerði hjá móður sinni, en foreldrar hans skildu þegar hann var barn. Tónlistin átti hug hans allan en hann fór líka í nám og lærði blaða- og fréttamennsku ásamt félagsfræði við Háskóla Íslands. En andlegir erfðleikar, eiturlyf, manía og depurð hafa tekið sinn toll. „Ég var með bipolar sjúkdóm, sem lýsir sér þannig að öll hugsun verður rosalega hröð. Þú verður aktífur, gerir mikið, og í mínu tilfelli þá missti ég alveg tengsl við raunveruleikann,“ segir Helgi Valur.

Hann segir að það hafi í raun verið auðveldara að sætta sig við geðsjúkdóminn en alkóhólismann á sínum tíma. „Ég hef alltaf verið heillaður af geðsjúkdómum. Ég hafði fegrað þá rosalega, sem listamaður og sem fræðimaður, lesið mér til um Hunter S. Thompson og Timothy Leary. Ég leit á þetta sem rannsókn á mannssögunni. Mér fannst skrýtið að lifa öllu lífinu án þess að hafa upplifað allt litróf tilfinninga og ég sá eiturlyf sem einn part af því.“

„Ég vann á Kleppi í fimm ár. Svo var maður að reykja gras og vakandi á nóttunni, og maður nær að rækta með sér geðsjúkdóm. Þá fattar maður að það er ekkert það sem maður vildi, þá fer rómantíkin af því þegar maður er ekki í tengslum við raunveruleikann,“ segir Helgi Valur.