Hatari afhjúpa svikamyllu hversdagsins

03.03.2017 - 13:05
Hatari vakti mikla athygli á nýafstaðinni Sónar-hátíð fyrir níðþungt synþapopp, grjótharða ádeilutexta og sviðsframkomu sem dansar á mörkum þess hrífandi og hins annarlega. „Við sjáum hversdagsleikann sem svikamillu og Hatari varð til til að afhjúpa hana,“ segja meðlimirnir í viðtali við Menninguna en þeir vilja þó frekar skilgreina sig margmiðlunarverkefni en hljómsveit.

Áður hafa Hatari meðal annars komið fram á Iceland Airwaves og listahátíðinni LungA og voru valdir besta tónleikahljómsveit ársins af tímaritinu The Reykjavík Grapevine

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós
Meðlimir Hatari staddir í hringiðu neyslusamfélagsins.

Dauðinn, tilgerð og heimsendir

Aðspurðir um hugðarefni sína segja strákarnir þau helstu vera dauðann, umbyltingu á samfélagi manna, tilgerðina sem felst í mannlegri tilveru, neyslusamfélagið og heimsendi. „Við fæðumst inn í ákveðið ástand, samfélag snjallmiðla og stöðugrar sviðsetningar. Þar sem okkar ímynd gengur kaupum og sölum,“ segja meðlimir Hatara og benda á að það sé í slíku andrúmslofti sem pópúlisminn hafi hreiðrað um sig í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu.

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós
Hatari segja að Í veröld stöðugrar sviðsetningar geti popúlistar auðveldlega komist til valda.

Nauðsynlegt að öskra 

„Við getum ekki breytt hlutunum, við getum í besta falli afhjúpað þá. Við sjáum enga ástæðu til að einskorða okkur við tónlistarmiðilinn,“ en Hatara fylgir sérstakur myndheimur og myndbönd, og þá koma þeir ekki fram í netmiðlum nema þeim sem þeir hanna sjálfir.

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós
Fagurfræði Hatara er um margt sérstök.

„Við búumst við að fólk taki þessu alvarlega. Þetta er óumflýjanlegur raunveruleiki rétt eins og það er óumflýjanlegur raunveruleiki að vera stöðugt að selja sjálfan sig. Þegar við seljum okkur þá verður það fyrir mjög mikið,“ segja þeir og bæta við að slikja kaldhæðni og tvíræðni vofi yfir svo til allri list og miðlun í dag. „Til að ná í gegnum þessa slikju þarf að taka sterkt til orða. Það þarf í rauninni að öskra svo einhver heyri í þér.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós
Það er ekki auðvelt að ná í gegnum slikjuna.
Mynd með færslu
Bergsteinn Sigurðsson
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
Kastljós
Menningin