Hart sótt að vígamönnum í Raqqa

17.07.2017 - 09:09
epa06023973 A soldier aims an automatic rifle through a peephole in a wall at Raqqa city, Syria, 11 June 2017 (Issued 12 June 2017). The People's Protection Unit (YPG, part of the Syrian Democratic Forces, SDF) advanced on the neighbourhoods of al
Liðsmaður SDF í bardögum í Raqqa.  Mynd: EPA
Sveitir uppreisnarmanna í Sýrlandi, SDF, sem njóta stuðnings Bandaríkjamanna, halda áfram sókn sinni gegn hryðjuverkasveitum Íslamska ríkisins í höfuðvígi samtakanna í borginni Raqqa.

Talsmaður SDF sagði við fréttastofuna AFP í morgun að liðsmenn Íslamska ríkisins hefðu verið hraktir frá Al-Yarmuk-hverfinu í suðvesturhluta borgarinnar í gær. Harðir bardagar geisuðu í borginni og sveitum SDF miðaði hægt áfram. Fregnir herma að SDF hafði nú rúmlega þriðjung Raqqa á sínu valdi. Höfuðáhersla væri lögð á að tryggja öryggi almennra borgara.

Sveitir SDF hófu undirbúning að endurheimt Raqqa í nóvember á síðasta ári og byrjuðu að taka bæi og þorp umhverfis borgina, með stuðningi úr lofti frá Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra í Austurlöndum nær. SDF réðst svo inn í Raqqa í síðasta mánuði og hefur nú rúmlega þriðjung borgarinnar á sínu valdi að því er fregnir herma.

Í Írak, þar sem stjórnarliðar endurheimtu nýlega helsta vígi Íslamska ríkisins, borgina Mósúl, er þegar byrjað að ræða næstu skref í baráttunni gegn samtökunum. Sjónvarpsstöðin Al Arabiya hefur eftir ónefndum heimildarmönnum að næsta orrusta verði um borgina Tal Afar, vestur af Mósúl, og að árásin hefjist innan hálfs mánaðar.

Fréttin hefur verið uppfærð.