Gylfi: Hækkar sjúkrakostnað margra

21.04.2017 - 06:31
OLYMPUS DIGITAL CAMERA          Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
 Mynd: Alþýðusamband Íslands
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og segir hana fela í sér alvarlega aðför að velferðarkerfinu. „Það er auðvitað ekki velferðarþjónusta að byggja nýjan spítala. Þó við gerum ekki lítið úr því að byggja spítalann þá telst það ekki vera heilbrigðisþjónusta heldur fjárfesting á vegum hins opinbera,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands og gagnrýnir að heilbrigðisþjónustan fái ekki aukin framlög.

ASÍ fagnar þaki á greiðsluþátttöku sjúklinga en segir það of hátt. „Það var um það talað að þakið yrði miðað við 50 þúsund, ekki 70 þúsund. Fyrir marga minna félagsmanna er þessi munur verulegur í útgjöldum. Í reynd þýðir það að þessi breyting mun hækka þeirra kostnað vegna heilbrigðisþjónustu en ekki lækka,“ segir Gylfi og gagnrýnir að ekki hafi verið staðið við fyrirheit um að þak á sjúkrakostnað sjúklinga yrði 50 þúsund krónur.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fyrrverandi formaður velferðarnefndar Alþingis, hefur lýst sömu skoðun og sagt að þetta sé ekki í samræmi við samkomulag í nefndinni á síðasta ári. Svipað mátti lesa í áliti nefndarinnar. Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra hafnaði gagnrýninni með þeim orðum að 50 þúsund króna hámarkið hefði aðeins átt við þá sem þyrftu oftast á heilbrigðisþjónustu að halda.

„Ég bara verð að viðurkenna það að annað hvort hefur Kristján Þór ekki talað með skýrum hætti, því það er klárt að bæði á þeim fundum sem við áttum og það sama gerðist í nefndinni, að það var talað um 50 þúsund,“ segir Gylfi. Það viðmið sé svo bara notað fyrir þá allra veikustu og það sé ekki í samræmi við samskipti ASÍ og stjórnvalda.

Alþýðusambands Íslands hefur óskað eftir fundi með fjármálaráðuneytinu til að fara betur yfir efnisatriði og forsendur fjármálaáætlunarinnar.