Guðni: „Tungumál ljúka upp heimum“

Innlent
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV

Guðni: „Tungumál ljúka upp heimum“

Innlent
 · 
Menningarefni
20.04.2017 - 16:57.Freyr Gígja Gunnarsson
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fór víða í ræðu sinni þegar Veröld - hús Vigdísar Finnbogadóttur var formlega tekið í notkun í dag. Boðið var upp á hátíðardagskrá í Háskólabíó og þangað sagðist forsetinn síðast hafa komið þegar hljómsveitin Skálmöld spilaði þar. Forsetinn sagði tungumálið, íslenskuna, vera ríkan þátt í sjálfsmynd þjóðarinnar.

Sýnt var beint frá athöfninni á ruv.is.  Forsetinn hóf reyndar ræðu sína á því að upplýsa áhorfendur og gesti að hann fyndi það á hverjum einasta degi hversu mikill heiður það væri að gegna þessu embætti. Hann hefði sótt skátamessu í morgun, síðan farið til Hveragerðis og nú væri hann kominn í Háskólabíó.

Svo fór hann að fordæmi prestsins í skátamessunni, framferði sem hann sagði til „háborinnar fyrirmyndar“, og bað alla gesti um að óska hver öðrum gleðilegs sumars. 

Guðni fór yfir feril Vigdísar, allt frá því að hún kenndi Íslendingum frönsku en líka þann tíma sem hún helgaði líf sitt leikhúsinu. Síðan hefði leiðin legið á Bessastaði. Guðni benti á saga staðarins hefði alltaf verið samofin tungumálum. Þegar fyrstu mennirnir hefðu komið þangað hefðu þar verið töluð norræn mál en sjálfsagt líka keltneska. „Kannski kemur heitið úr heimi Kelta.“  Hann rifjaði reyndar upp aðra kenningu, um að Bessastaðir væru nefndir eftir tengdaföður Snorra Sturlusonar, Bersa. Og hefðu því heitið Bersastaðir. 

Guðni sagði að fyrri forsetar hefðu allir borið hag íslenskunnar fyrir brjósti en líka verið mælskir á önnur tungumál. „Þegar ég kom til Bessastaða var ég búinn að leggja minn skerf í þýðingarstarfið. Sneri bókum Stephen King yfir á íslensku. Þetta er kannski engin Heimskringla, Hómer eða Goethe,“ sagði forsetinn og uppskar mikinn hlátur. 

Hann varaði þó við því að fólk gerði of mikinn greinarmun á meintri hámenningu og lágmenningu og  rifjaði upp að síðast þegar hann hefði komið í Háskólabíó hefði það verið til að hlusta á tónleika Skálmaldar. Og forsetinn fór með brot úr laginu Kvaðning með sveitinni. „Enska væri þeim kannski vænlegri til vinsælda erlendis en þegar maður les athugasemdir aðdáenda á You Tube skilst manni á þeim að það sé vandfundið betra mál fyrir víkingarokk.“

Guðni sagði tungumál alltaf ljúka upp fyrir okkur heimum en tungumálið treysti líka böndin heima fyrir. Íslenskan væri ríkur þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar - hún væri þráðurinn sem tengdi okkur og þess vegna væri brýnt að hægt væri að nota hana - meðal annars í hinum rafræna heimi.