Gróðafíkn að baki árásinni á lið Borussia

21.04.2017 - 07:05
epa05918586 (FILE) The team bus of German soccer club Borussia Dortmund is seen on a street after it was hit by three explosions in Dortmund, Germany, 11 April 2017 (reissued 21 April 2017). Media reports on early 21 April 2017 state that a suspect in
 Mynd: EPA
Lögregla í Þýskalandi handtók einn mann nú í rauðabítið, sem sterklega er grunaður um að bera ábyrgð á misheppnaðri sprengjuárás á rútur knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund fyrr í þessum mánuði. Þykir ljóst að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða, heldur hafi gróðavon ráðið gjörðum tilræðismannsins. Sá er 28 ára gamall kaupahéðinn, Sergej W. að nafni.

Tímaritið Der Spiegel greinir frá því að ætlan hans hafi að líkindum verið að deyða eða særa eins marga liðsmenn Dortmund og hann mögulega gæti, með það fyrir augum að hagnast á fallandi gengi hlutabréfa í félaginu í framhaldinu. Áður hafði hann gert stóran valréttarsamning um kaup á hlutabréfum í félaginu. Lækkun á gengi þeirra hefði tryggt honum mun fleiri bréf fyrir sömu upphæð, sem hann hugðist selja aftur með milljóna evra hagnaði þegar gengið hækkaði á ný.  

Sérsveit lögreglunnar réðist í morgun inn á heimili Sergejs í nágrenni borgarinnar Tübingen í Baden-Württemberg. Búið var að fylgjast náið með honum um nokkurra daga skeið í aðdraganda handtökunnar, eftir að ábendingar bárust úr fjármálageiranum, þar á meðal tilkynning frá banka vegna gruns um peningaþvætti.

Reynist þessar grunsemdir á rökum reistar, segir í frétt Der Spiegel, þá er þetta einsdæmi í þýskri afbrotasögu. En þótt hugmyndin væri vissulega nýstárleg var hún viðvaningslega útfærð. Braskarinn gekk frá valréttarsamningnum í gegnum Netið. IP-talan sýndi að hann var á sama hóteli og fótboltaliðið þegar þau viðskipti gengu í gegn. Úr herberginu hafði hann útsýni yfir vegkantinn, þar sem sprengjurnar þrjár sprungu í þann mund sem rútunni var ekið þar hjá. Talið er líklegt að hann hafi sprengt þær með fjarstýringu.

Honum urðu þó á afdrifarík mistök við staðsetningu aðalsprengjunnar, til allra heilla fyrir þá sem í rútunni voru. Fyrsta og síðasta sprengja voru í götuhæð og sprungu eins og að var stefnt, framan og aftan við rútuna. Sprengju númer tvö, sem var fyrir miðri rútu þegar hún sprakk, var hins vegar komið fyrir of hátt uppi, sem varð til þess að banvænt innihaldið, flugbeittir stálnaglar, flugu að langmestu leyti hátt yfir rútuna og gerðu lítinn miska, þótt einn lögreglumaður og einn leikmaður særðust nokkuð.

Þá sannar handtaka hins gíruga braskara að líkindum endanlega það sem rannsakendur var farið að gruna fyrir nokkru, nefnilega að ekki væri nokkuð mark takandi á yfirlýsingum sem skildar voru eftir á vettvangi, þar sem gefið var til kynna að Íslamska ríkið hefði staðið að sprengjuárásinni.

Í fyrsta lagi, segir í frétt Spiegel af þeim tilskrifum, hefur það aldrei gerst að tilræðismenn úr þeim illræmdu samtökum hafi skilið eftir sig slík bréf. Í öðru lagi var orðalagið allt með þeim hætti að ólíklegt þótti að það væri runnið úr penna öfgasinnaðra og herskárra íslamista. Og í þriðja lagi er óvenjulegt, segir í grein Spiegel um þessi skrif árásarmannsins, að þar er Angela Merkel, Þýskalandskanslari, ávörpuð beint. Slíkt ku vera viðtekin venja í útvarpsávörpum leiðtoga herskárra íslamista, en ekki í yfirlýsingum þeirra um ábyrgð á einstökum hryðjuverkum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV