Gegnumslag í Vaðlaheiðargöngum í næstu viku

21.04.2017 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: Valgeir Bergmann  -  Vaðlaheiðargöng hf.
Stutt er í gegnumslag í Vaðlaheiðargöngum og nú á verktakinn aðeins eftir 37 metra til í að komast í gegn. Það á að verða á föstudaginn eftir viku og þá gefst almenningi kostur á að kynna sér gangagerðina.

Fyrsta sprenging í Vaðlaheiðargöngum var í júlí 2013 og nú, 46 mánuðum síðar, vantar ekki mikið upp á að verktakinn komist í gegn. Upphaflega var stefnt að gegnumslagi á haustmánuðum 2015 en sem kunnugt er hafa ýmis áföll dunið yfir. Það er því ákveðinn léttir fyrir forsvarmenn Vaðlaheiðarganga og verktakans, að nú sé loksins að koma að því að þeir nái í gegn.

„Loksins, loksins, það má segja það. Það er búið að ganga á ýmsu og þetta er bara mjög gott að loksins séum við komin á þennan áfanga og verktakinn getur þá einbeitt sér að því að fara að vinna á fleiri stöðum heldur en bara í gangagreftri. Nú er bara að fara að telja niður, nýr áfangi, og líklegast 15 mánuðir eftir þangað til hægt er að keyra í gegn,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf.

Í gær boraði verktakinn, venju samkvæmt, könnunarholu áður en aftur er sprengt. Þá kom í ljós að aðeins 37 metrar eru eftir, því borinn fór alla leið í gegn. Af þessu tilefni ætlar verktakinn að opna vinnusvæðið á föstudaginn eftir viku, þar sem almenningi gefst kostur á að fara inn og kynna sér aðstæður í göngunum.

Óvissunni í gangagerðinni hefur nú að mestu verið eytt og því ætti ófyrirséður kostnaður ekki að verða meiri en hann er orðinn nú þegar.

„Óvissunni í jarðgangagerðinni er að ljúka en það er alltaf óvissa í verkáætlunum og það á ýmislegt eftir að breytast, ýmislegt eftir að koma upp á. Kosturinn við það að nú höfum við allt verkið undir, það eru ekki bara 7,2 kílómetrar, heldur eru það allir vegir og vinnusvæðið er orðið miklu stærra,“ segir Valgeir.