Gefðu mér djass í skóinn

Gagnrýni
 · 
Jólin
 · 
Poppland
 · 
Skafrenningarnir
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Gefðu mér djass í skóinn

Gagnrýni
 · 
Jólin
 · 
Poppland
 · 
Skafrenningarnir
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
16.12.2016 - 12:16.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Skafrenningarnir hafa m.a. á að skipa leikaranum og nú söngvaranum Þorvaldi Davíð Kristjánssyni. Á Jólin – Það hlakka allir til nema ég renna þeir sér í gegnum djassstaðla sem Chet Baker gerði fræga og skreyta þá með jólakúlum. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er plata vikunnar á Rás 2.

Skafrenningarnir eru þeir Þorvaldur Davíð Kristjánsson (söngur), Tómas Jónsson (píanó), Ari Bragi Kárason (trompet), Kristófer Rodriguez (slagverk) og Birgir Steinn Theodorsson (kontrabassi). Á þessari plötu leggur Einar Scheving auk þess fram trommuleik í þremur lögum. Tónlistin er djass, lög sem Chet Baker gerði fræg en textar allir íslenskir, eftir Erik Sördal. Platan er í raun temabundin, Þorvaldur er í hlutverki djasssöngvara sem er aðeins of svalur náttúrulega fyrir jólahaldið (það hlakka allir til nema hann samkvæmt plötutitli) og sýn hans á hátíðirnar er kaldranaleg og gráglettin. Honum er sama um þetta „jólafokk“ og hlustar á þungarokk og klúðrar náttúrulega öllu á Þorláksmessunni, gleymir gjöfunum á barnum en lofar bót og betrun eftir að ekkisens jólatíðinni er lokið.

Seyðandi

Þorvaldur skilar þessu hlutverki af sér með stæl, líkt og hjá Baker er söngurinn seyðandi, kæruleysislega kúl getum við sagt og því einkar hæfandi, sé tillit tekið til innihaldsins. Hljóðfæraleikararnir kunna sitt fag upp á tíu, tónlistarlega er þetta klíðmjúkt og rennslið afskaplega ágætt, þar sem ég skrifa nú rennur hún flauelsmjúkt um stofuna. Hljómur frábær; dúnmjúkur, hlýr og lokkandi (Kristinn Evertsson og Kjartan Kjartansson sáu um þann þátt). Tvö ósungin lög eru hér líka þar sem spilarar fara á hlemmiskeið og leyfa sínu ljósi að skína. Þegar hlustað er koma aðrar plötur af viðlíka toga upp í hugann, einkanlega Svöl jól (1998) sem Jólakettirnir gáfu út en einnig Majones jól (2006) Bogomil Fonts og Stórsveitar Reykjavíkur, báðar tvær sérdeilis skemmtilegar.

Stemning

Umbúðir um diskinn eru þá smekklegar, stemningsmyndir og hönnun í stíl við þá áru sem leikur um tónlistina. Vel heppnaður heildarpakki frá Skafrenningunum og skemmtileg viðbót í íslenska jólatónlistarflóru.

Tengdar fréttir

„Það hlakka allir til nema ég“

Tónlist

Bræðralagsást í Bítlasetri

Tónlist

Með tónlistina í blóðinu

Tónlist

Slembilukka getur af sér sjóðandi heitt rokk