Fyrsti kvenkyns dómarinn í Bundesligunni

19.05.2017 - 20:00
epa02824760 (FILE) - A file picture taken on 6 July 2011 shows soccer referee Bibiana Steinhaus during a FIFA Women's World Cup match of Brazil versus Ecuatorial Guinea in Frankfurt, Germany. Steinhaus will be referee in the finale of the world cup
 Mynd: EPA
Bibiana Steinhaus mun dæma í þýsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Hún verður fyrst kvenna til að dæma í Bundesligunni.

Fjórir nýir dómarar voru kynntir til leiks fyrir næstu leiktíð í þýsku deildinni í dag. Steinhaus, sem er 38 ára, hefur síðastliðin sex ár dæmt í þýsku 1. deildinni en dæmir í deild þeirra bestu á komandi leiktíð.

„Draumur okkar allra er að rætast. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni,“ sagði Steinhaus í dag en næsta verkefni hennar er að dæma úrslitaleik meistaradeildar kvenna þegar frönsku liðin Lyon og Paris St. Germain mætast í Cardiff þann 1. júní.

Hún sagði að allir dómarar hefðu það að markmiði að geta dæmt í efstu deildum og þar skipti ekki máli hvort um væri að ræða karlkyns eða kvenkyns dómara.

„Ég veit að ég er fyrst kvenna til að dæma í Bundesligunni og fjölmiðlar og almenningur munu fylgjast grannt með mér. En ég þekki þessa pressu og ég er sannfærð um að ég muni standa mig. Ég hef unnið að þessu markmiði undanfarin ár og það hefur ekki verið auðvelt að ná því.“

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður