Frumkvöðull og jaðarpersóna

Morgunvaktin
 · 
Tónlist

Frumkvöðull og jaðarpersóna

Morgunvaktin
 · 
Tónlist
Mynd með færslu
20.03.2017 - 10:57.Óðinn Jónsson.Morgunvaktin
„Einn daginn kom hann akandi, 85 ára gamall, á gömlum, stórum, bláum Chevrolet-bíl, að flugskýlinu. Þetta var gömul kerra, flottur amerískur blæjubíll. Út steig Chuck Berry sjálfur og hann vildi endilega fá að líta á þennan grip í flugskýlinu. Og hann tók sé góðan tíma til að skoða flugvélina og tæknina sem hún var byggð á.“ Þannig lýsti Jón Björgvinsson því á Morgunvaktinni á Rás 1 þegar hann hitti Chuck Berry, sem var kominn á bensínháknum að skoða flugvél knúna sólarorku.
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson  -  Morgunvaktin
Chuck Berry og Jón Björgvinsson í St.Louis

Chuck Berry kvaddi þess jarðvist á laugardaginn, níræður að aldri. Hann fæddist í St.Louis í Missouri 18.október 1926 og átti að baki ótrúlegan feril, hafði gríðarleg áhrif á þróun dægurtónlistarinnar. Hann fæddist inn í miðstéttarfjölskyldu. Fljótt kom í ljós að hann var sjálfstæður, uppátækjasamur og ósvífinn. Ungur var hann dæmdur fyrir vopnað rán og sat inni í nokkurn tíma. Berry fékk sér vinnu í bílaverksmiðju og stofnaði fjölskyldu. En músíkin heillaði hann: gítarleikur og sviðsframkoma T-Bone Walker. Hann kynntist Muddy Waters í Chicago og komst á samning hjá Chess-útgáfunni goðsagnakenndu. Maybellene var fyrsti smellurinn árið 1955, lag sem spunnið var út frá gömlum country-söng. Síðan komu þau lögin hvert af öðru. En annar fangelsisdómur 1962 setti strik í ferilinn. Hann var handtekinn og dæmdur fyrir að fara með 14 ára gamla unglingsstúlku yfir ríkjamörk. Berry var látinn laus árið eftir, 1963, og fleiri lög hans náðu vinsældum. Raunar komst Chuck Berry oft í kast við lögin og athafnir hans fóru þvert á viðmið í siðferðislegum efnum.

„Chuck Berry var jaðarpersóna alla sína tíð,“

segir Jón Björgvinsson. En eftir að rokkhetjan hafði skoðað sólarflaugina á flugvellinum í St.Louis bauð hann Jóni og félögum á tónleika um kvöldið.

„Vissulega var dálítið sársaukafullt að sjá hetjuna glamra á Gibsoninn sinn á sviðinu“

En gamla hetjan bætti upp hnignandi getu með fjörugri framkomu. Hann augljóslega naut stundarinnar. Tónlistarstaðurinn var troðfullur af ungur fólki sem lét sér í léttu rúmi liggja hvað gamli maðurinn var að spila og syngja. Þau voru komin til að sjá goðsögnina. Síðan eftir tónleikana bauð Chuck Berry aðstandendum sólarorkuflugvélarinnar, Jón Björgvinssyni og félögum, baksviðs til að spjalla um rokkið, Gibson-gítara, bíla og flugvélar. „Það var auðvitað eftirminnilegt að eyða þessum tíma með þessum frumkvöðli rokksins. Fyrir mér er hann brúin á milli svarta blússins og hvíta rokksins, sem fæddi af sér Elvis, The Rollingt Stones, Bítlana – og lifði marga þeirra af. Fyrir mér er Chuck Berry maðurinn sem hraðaði blústakti þeirra svörtu og bætti í dálítlu af country þeirra hvítu. Rokkið varð þar með til.“

„Fyrir mér var þetta gífurlega merkileg stund – að fá að kynnast karlinum og eyða þessum tíma með honum.“

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Rokkgoðsögnin Chuck Berry látin