Frestar heimsókn forsætisráðherra Tyrklands

12.03.2017 - 15:32
epa04945266 Danish Prime Minister Lars Lokke Rasmussen arrives at the start of an extraordinary EU Summit on the current migration and refugees crisis in Europe, in Brussels, Belgium, 22 September 2015. EU leaders meet for an extraordinary summit on
Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.  Mynd: EPA
Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur vill fresta opinberri heimsókn starfsbróður síns frá Tyrklandi, vegna aukinnar spennu í samskiptum Tyrklands við hollensk stjórnvöld. Binali Yilderim, forsætisráðherra Tyrklands átti að koma til Danmerkur 20. mars. Lökke segir í yfirlýsingu í dag að undir venjulegum kringumstæðum hefði ekkert mælt á móti heimsókninni, en hún gæti ekki átt sér stað nú í ljósi harðra viðbragða Tyrkja gegn Hollendingum.

Í frétt DR af þessu máli kemur fram að Yilderim hafi í gær sagt tyrkneskum fjölmiðlum frá fyrirhugaðri heimsókn til Danmerkur eftir rúma viku, og að til stæði að ræða ýmis mikilvæg mál.

Þessi yfirlýsing kom á sama tíma og spenna eykst í samskiptum Tyrklands við ýmis Evrópuríki, nú síðast Holland, eftir að hollensk yfirvöld vísuðu einum tyrkneskum ráðherra úr landi og meinuðu flugvél annars að lenda. Sú ákvörðun hefur vakið hörð viðbrögð í Tyrklandi, meðal annars hjá Tayyip Erdogan, forseta landsins, sem sagði í dag að ákvörðun Hollendinga yrði þeim dýrkeypt. Mótmæli voru í Rotterdam í gærkvöld þar sem óeirðalögregla var kölluð til, og í Istanbúl og Ankara hafa mótmælendur safnast saman við ræðismannsskrifstofu og sendiráð Hollands. 

Tilgangur þessara ferða tyrknesku ráðherrana til Hollands var að koma fram á samkomum með Tyrkjum sem búsettir eru í Hollandi og hafa kosningarétt í Tyrklandi, og tala fyrir fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá Tyrklands, sem kosið verður um í þjóðaratkvæðagreiðslu í næsta mánuði. Álíka fundum hefur verið aflýst í Þýskalandi, Sviss og Austurríki. 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV