Formannsvantraust vegna launahækkunar og bíls

19.05.2017 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Neytendasamtakanna hefur lýst vantrausti á formanninn, Ólaf Arnarson. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru helstu ástæður fyrir vantraustinu ákvarðanir um 50 prósenta launahækkun formannsins og að hann hafi látið samtökin kaupa bíl til eigin nota. Þá hafi Ólafur tekið ákvörðun um að verja 700 þúsund krónum á mánuði í smáforritið Neytandann án samþykkis stjórnar.

Stefán Hrafn Jónsson stjórnarmaður staðfestir þetta. Formaðurinn tók skuldbindandi ákvarðanir framhjá stjórninni og hefur þannig sett samtökin í dálítið þrönga stöðu og við erum að vinna úr því og með öflugum samtökum naum við því en þetta er þröng staða og þess vegna ákváðum við að lýsa yfir vantrausti,“ segir Stefán Hrafn.

Ólafur Arnarson vísar því á bug að hann hafi sjálfur tekið ákvörðun um launahækkun sína og bílakaup.  „Þetta er alrangt. Ég tók enga ákvörðun um mín laun. Stjórnin ákvað að fela hópi sem í sátu gjaldkeri samtakanna og tveir utanaðkomandi aðilar, einn eldri stjórnarmaður og einn utanaðakomandi sérfræðingur á þessu sviði. Ég hafði ekkert með þetta að gera, sá raunar aldrei þessa tillögu fyrr en eftir að ég hafði skrifað undir ráðningarsamning,“ segir Ólafur. 

Þurfti bíl vegna starfsins

„Varðandi bíl, ég lagði til að yrði fenginn bíll til umráða á skrifstofuna en ég hefði aðgang að. Formaður neytendasamtakanna þarf að sinna erindum um allan bæ og fara í fundarferðir út á land. Það var samþykkt á ákveðnum forsendum en síðan kom í ljós að til að ég gæti notað bílinn [eins og ég þyrfti], þarf bíllinn að vera skráður á viðkomandi aðila. Ég greiði  hlunnindaskatt af því og ég hafna því með öllu að þetta hafi verið ákvarðanir sem hafi verið teknar framhjá stjórn. Það var ekki, stjórnin tók þátt í þessum ákvörðunum. Þetta var jafnframt byggt á ráðum fjármálastjóra að stjórnin hefði bolmagn til að ráðst í þetta,“ segir Ólafur

Spurður hvort hann hafi íhugað að stíga til hliðar í ljósi óánægju stjórnar segir Ólafur: „Ég sit ekki samkvæmt ákvörðun stjórnar, ég er kosinn af þingi neytendasamtakanna sem er æðsta vald samtakanna. Ég setti fram ákveðna sýn sem færði mér yfirgnæfandi kosningu í formannskjöri þar sem nokkrir tókust á. Mínar skyldur eru við samtökin og neytendur. Mér þykir það miður að það sé verið að fara með og búa til einhverja fjölmiðlaumræðu um eitthvað karp á stjórnarfundum,“ segir hann.

Hefði átt að bera undir stjórn

Eitt af því sem stjórnin er óánægð með, samkvæmt heimildum fréttstofu, er að Ólafur hafi tekið ákvörðun um að verja 700 þúsundum króna á mánuði í smáforritið Neytandinn. „Ég hef fallist á það að þegar var gerður samningur um Neytandann var sá samningur var ekki borinn undir stjórnina og hefði átt að berast undir stjórnina,“ segir Ólafur.

Stefán Hrafn segir að stjórnin geti ekki sett formanninn af. „Formaðurinn er kjörinn á þingi samtakanna þannig að stjórnin getur ekki vísað honum frá en það er rétt að þessi vantraustsyfirlýsing stendur,“ segir hann.