Formanni Neytendasamtakanna sagt upp

19.05.2017 - 18:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Neytendasamtakanna hefur sagt upp ráðningarsamningi Ólafs Arnarsonar, formanns samtakanna, sem framkvæmdastjóra samtakanna. Þetta var gert fyrir nokkrum vikum. Stjórnin samþykkti vantraust á Ólaf 6. maí síðastliðinn en hann ætlar að sitja áfram sem formaður.

Ólafi Arnarsyni, formanni og framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna hefur verið sagt upp störfum og stjórn hefur lýst yfir vantrausti á hann. Ólafur segir í samtali við fréttastofu að hann hyggist starfa þar til uppsagnarfrestur rennur út og að hann ætli ekki að hætta sem formaður samtakanna. „Ég var kosinn formaður til tveggja ára og stend undir því trausti sem mér var sýnt,“ segir Ólafur. Spurður hvort hann telji sig enn njóta trausts meðal félagsmanna segir hann: „Ég tel mig enn njóta trausts. Þetta breytir engu, ég held áfram sem formaður,“ segir Ólafur.

Í tilkynningu frá stjórn Neytendasamtakanna kemur fram að þann 6. maí hafi stjórnin samþykkt vantrauststillögu á formanninn. Nú sé búið að segja ráðningarsamningi Ólafs upp. Ástæður vantrausts séu fyrst og fremst þær að ráðningarsamningur formanns var ekki borinn undir stjórn og að skuldbindingar varðandi rekstur bifreiðar  voru einnig án vitundar og samþykkis stjórnar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru helstu ástæður fyrir vantraustinu ákvarðanir um 50 prósenta launahækkun formannsins og að hann hafi látið samtökin kaupa bíl til eigin nota. Þá hafi Ólafur tekið ákvörðun um að verja 700 þúsund krónum á mánuði í smáforritið Neytandann án samþykkis stjórnar.

Ólafur vísar því á bug að hann hafi tekið ákvörðun um launahækkun sína og bílakaup án samþykkis stjórnar. „Þetta er alrangt. Ég tók enga ákvörðun um mín laun. Stjórnin ákvað að fela hópi sem í sátu gjaldkeri samtakanna og tveir utanaðkomandi aðilar, einn eldri stjórnarmaður og einn utanaðakomandi sérfræðingur á þessu sviði. Ég hafði ekkert með þetta að gera, sá raunar aldrei þessa tillögu fyrr en eftir að ég hafði skrifað undir ráðningarsamning,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu. 

Þá segir hann að bíllinn hafi reynst nauðsynlegur fyrir störf formanns. 

Í tilkynningu frá stjórninni segir: 

Ólafur Arnarson er góður talsmaður neytenda í fjölmiðlum en hann er ekki einráður í Neytendasamtökunum og starfar þar ásamt stjórn í að efla stöðu samtakanna. Fjárhagsstaða samtakanna leyfði ekki þær skuldbindingar sem Ólafur stofnaði til og er verið að vinna í að leiðrétta þær. Stjórn samtakanna vinnur að því að styrkja stöðu samtakanna enn frekar og koma í veg fyrir að samtökin þurfi að draga saman seglin og geti áfram þjónustað neytendur með sem bestum hætti. Þessar aðgerðir eru liður í björgunarstarfi til að halda samtökum gangandi sem hafa verið til í 64 ár.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV