Flugi til og frá Ísafirði aflýst

17.04.2017 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flugfélag Íslands hefur aflýst flugi til og frá Ísafirði það sem eftir er dags vegna veðurs. Flugi til og frá Akureyri og Egilsstöðum hefur verið frestað og næstu upplýsinga um það er að vænta klukkan 16.15, að því er fram kemur á vef flugfélagsins.

Flugi sem átti að fara til Ísafjarðar klukkan 16.40 og aftur til baka klukkan 18.25 hefur verið aflýst, og sömuleiðis flugi sem átti að fara vestur klukkan 17.00 og til baka klukkan 18.45. Þetta má lesa á vef Flugfélags Íslands.

Þá átti að fljúga frá Egilsstöðum til Reykjavíkur klukkan 12.10 en því flugi var frestað. Einnig er búið að fresta tveimur ferðum sem fara átti til og frá Akureyri á fjórða og fimmta tímanum. Óvíst er hvort flogið verður, og það sama er að segja um ferðir til og frá Akureyri og Egilsstöðum í kvöld. Upplýsingar um þau flug eru boðaðar klukkan 16.15.

Síðasta flug sem farið var lenti í Reykjavík frá Akureyri klukkan 13.34. Í morgun og fram að hádegi var flogið vandræðalítið. Veðurstofan gaf út ókyrrðarviðvörun í morgun sem til stóð að framlengja vegna versnandi veðurs eftir hádegi.