Flugbíll væntanlegur á markað

20.04.2017 - 20:52
Fljúgandi bílar eru ekki lengur eitthvað sem við sjáum bara í bíómyndum. Fyrsti flugbíllinn verður kynntur til sögunnar á morgun og til stendur að setja hann á markað á þessu ári.

Fljúgandi bílar eru fantasía sem menn hafa leikið sér með um langt árabil. Kittý kittý bang bang heillaði börn upp úr skónum á 7. áratug síðustu aldar og DeLorean bíllinn í Back to the Future þríleiknum var önnur skemmtileg fantasía. En fljúgandi bílar eru að verða dauðans alvara, því slóvakíska fyrirtækið Aeromobil ætlar að setja slíkan bíl á markað á þessu ári.

Bíllinn verður kynntur á Top Marques sýningunni í Mónakó á morgun, sem er nokkurs konar kaupstefna fyrir þotuliðið. Hönnun bílsins hófst þegar á 10. áratug síðustu aldar og 20 árum síðar, árið 2013 var tilraunaeintaki hans fyrst flogið. Nú, fjórum árum síðar, stendur svo til að setja bílinn á markað. 

Flugbíllinn verður þó ekki beinlínis aðgengilegur almenningi fyrst um sinn, því verðmiðinn hljóðar upp á tugi milljóna, nánari upplýsingar fást ekki.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV