Fjöldi spurninga borist - nokkur svör

15.05.2015 - 07:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfir áttatíu lömb hafa fæðst í Syðri Hofdölum í Skagafirði frá því bein sjónvarpsútsending hófst þaðan á hádegi í gær. Áhorfendur hafa verið duglegir að senda inn spurningar undir merkinu #beintfráburði á Facebook og Twitter. Hér eru nokkrar spurningar og svör við þeim.

Hvað eru ær lengi að bera?
Það er mjög misjafnt eftir ám. En samkvæmt því sem kemur fram í bókinni „Sauðfjárrækt á Íslandi“ er meðal burðartími íslenskra áa einn og hálfur til tveir tímar. 

Hvað ganga ærnar lengi með?
Meðalmeðgöngutími áa er 143 dagar en það getur sveiflast um að minnsta kosti þrjá daga til eða frá. 

Þarf að hjálpa ám að bera, svo mikið sem raun ber vitni. Eða er 
það ákvörðun bóndans að vera með inngrip?
 
Oftast grípa bændur ekki inn í nema þörf sé á því, það er að það sé allavega ástæða til að ætla að eitthvað sé að. Helstu vandamál í burði eru þau að hausinn komi á undan framfótunum eða að lambið snúi öfugt. Þá getur það gerst að lömb séu þversum, séu óeðlilega höfuðstór eða með horn í stærra lagi. Þá þarf að aðstoða. Í verstu tilfellunum getur þurft að gera keisaraskurð á ánum. 

Hvaða lyf eru lömbunum gefin? 
Þeim eru gefin lyf til að fyrirbyggja slefsýki. Slefsýki er sjúkdómur sem veldur vaxandi tjóni. „Orsakir eru þær að kólísýklar berast með óhreinindum ofan í nýfætt lamg, oft á undan broddi. Sýklarnir berast ofan í mjógirni, þar sem þeir fjölga sér en deyja síðan. Eitur sýklanna losnar þá úr læðingi og lamar hreyfingar garna. Afleiðingar eru lystarleysi og hungurdauði eða blóðeitrun, líffærabilun og dauði.“ (Úr bókinni Sauðfjárrækt á Íslandi.) Þá er lömbunum í Syðri Hofdölum gefið Selen, sem er vítamín sem varnar stíuskjögri. Einkenni stíuskjögurs eru þróttleysi, lömb verða stirð og reikul í spori og ef ekkert er að gert drepast þau eftir nokkra daga. 

Hvaða strik og doppur eru máluð á hrygginn og hálsinn á ánum?
Liturinn á hálsinum táknar í hvaða beitarhólf þær eiga að fara þegar þeim verður sleppt út. Flokkað fyrirfram til að spara vinnu síðar. Strikin á hryggnum merkja að búið sé að gefa lömbunum slefmeðalið. Þetta er því nokkurskonar minnismiði og/eða skilaboð til þess sem kemur næstur á vaktina. Þá eru rauðir punktar á þeim sem eru með einu lambi. Blár punktur á gemlingum þíðir að þeir eru með tveimur lömbum en á fullorðnu ánum táknar hann að þær verði þrílembar. 

Af hverju eru ekki sett örmerki í lömbin í stað þess að klippa í 
eyrun á þeim?

Samkvæmt landslögum ber að marka allt sauðfé með eyrnamarki. Hugsanlega eru örmerki hinsvegar framtíðin og geta auðveldað bændum að lesa fé sitt í sundur.

Spurningunum var svarað í beinni útsendingu en svörin voru einni birt á Facebook síðu RÚV í nótt. Útsending stendur yfir til kl. 12 í dag. Enn er hægt að senda inn spurningar á Facebook og Twitter. 

Eitt, tvö og.þrjú!#beintfráburði

Posted by RÚV on 14. maí 2015