Fimmfalt meira skólprusl á Nesinu

10.07.2017 - 20:02
Mynd með færslu
Líffræðingur frá Umhverfisstofnun og garðyrkjustjóri Seltjarnarnesbæjar safna rusli  Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Notaðir eyrnapinnar, blautþurrkur og dömubindi eru nú minnst fimmfalt fleiri í fjöru á Seltjarnarnesi en í apríl. Það er rakið til mikils skólpflæðis úr skólpdælustöðinni við Faxaskjól. Bæjarstjóri Seltjarnarness segir að fyrsta verk ætti að vera að upplýsa alla. Bærinn fékk ekkert að vita frekar en aðrir. 

Afleiðingar bilunarinnar í skólpdælistöðinni við Faxaskjóli koma fram víða. Á vegum Umhverfisstofnunar eru nokkrir 100 metra kaflar í nokkrum fjörum landsins vaktaðir í tengslum við svokallað Ospar-samkomulag og rusli safnað á þriggja mánaða fresti og hefur verið síðan í júlí í fyrra. Bakkavík á sunnanverðu Seltjarnarnesi fyrir neðan Nesbala er einn fjörukaflanna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Jóhanna Björk Weisshappel

Margra klukkustunda vinna beið þriggja starfsmanna þar í dag og mun meiri en í fyrri skipti þegar rusli var safnað þar. Jóhanna Björk Weisshappel líffræðingur á Umhverfisstofnun er einn þeirra: 

„Þetta eru blautþurrkur og dömubindi og eyrnapinnar og bönd af túrtöpppum og öðru slíku, sem kemur hreinlega úr skólpi. Miðað við í apríl þá er þetta svona fimm- til sexfalt meira heldur en við fundum. Sem sagt magnið af dömubindum og blautþurrkum.“

Finnst þér þetta þá augljóst að þetta sé þá núna úr Faxaskjóli?

„Já, ég sé það líka á því að eyrnapinnarnir eru nýlegir. Venjulega sér maður bara stangirnar af eyrnapinnunum, þessar bláu stangir, plaststangirnar. Núna sjáum við bómullina á sitthvorum endanum þ.a. það gefur til kynna að skólpið sé nýtt mjög nýtt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Ásgerður Halldórsdóttir

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar segir að sér sé brugðið að heyra af svo mikilli aukningu á svona stuttum tíma. En var bærinn látinn vita af biluninni í skólpdælustöðinni við Faxaskjól: 

„Nei, hann var ekki látinn vita af þessari bilun og það er náttúrulega mikil ábyrgð hjá þeim sem stjórna Veitum að upplýsa ekki bæjarfélögin, sem eru í nánd við þetta svæði, sem að bilunin virðist hafa orðið strax í júní. Náttúrulega eins og búið er að benda á í fjölmiðlum að þá er náttúrulega fyrsta atriðið að upplýsa alla.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV

Í tilkynningu frá Veitum rétt fyrir klukkan sex í kvöld segir að fyrirtækið hefði mátt standa betur að upplýsingagjöf til almennings frá upphafi. Stjórnendur biðjist afsökunar á þeim óþægindum sem það hafi valdið. Í framtíðinni verður upplýsingagjöf til almennings aukin þegar skólp fer í sjó við strendur, segir í tilkynningunni. Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fóru yfir verklagið í dag. Fram kemur í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu að sýni verði tekin daglega út vikuna. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV

Neyðarlúgan í skólpdælustöðinni í Faxaskjóli er enn biluð og höfð lokuð. Það þýðir að skólp flæðir ekki í miklum mæli í sjóinn. Þó lekur enn með lúgunni segir í tilkynningu Veitna. Sýni voru tekin í dag og beðið er niðurstaðna. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV

Á þeim 16 til 17 dögum þar sem skólpi flæddi óhindrað út við Faxaskjól tók Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sýni fjóra daga. Mældur er fjöldi saurkóligerla og enterokokka í hverjum 100 millilítrum. Tölurnar sem merktar eru með gulu er þegar gerlarnir eru yfir mörkum. Á föstudaginn síðasta í kverk austan við dælustöðina voru saurkólígerlar 40 sinnum fleiri en viðmiðunarmörk heimila við baðstaði. Vart þarf að taka fram að þarna er ekki baðstaður. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV